Byggðasafn Skagfirðinga 75 ára
Boðið var til afmælishátíðar í Glaumbæ í tilefni 75 ára afmælisins Byggðasafn Skagfirðinga annan dag hvítasunnu sem um 700 manns sótti. Byggðasafn Skagfirðinga stendur fyrir varðveislu, rannsóknum og miðlun á skagfirskri menningu og minjaumhverfi og er elsta byggðasafn landsins, stofnað 29. maí árið 1948 sem fékk þá til afnota gamla bæinn í Glaumbæ á Langholti þar sem er miðstöð minjavörslunnar í Skagafirði.
Það er ekki síst fyrir rausnarlega peningagjöf skoska aðalsmannsins Mark Watson til viðgerða á gamla torfbænum í Glaumbæ áratug fyrr eða árið 1938 að bærinn er enn varðveittur. Watson var mikill Íslandsvinur og hefur hans verið minnst reglulega með sérstökum viðburði á safninu í kringum fæðingardag hans 18. júlí en hann hefur einnig verið titlaður bjargvættur íslenska fjárhundakynsins og er afmælisdagur hans „Dagur íslenska fjárhundsins“. Glaumbæjarsafn hefur sett upp fjölda sýninga í Skagafirði, s.s. á Hólum og Hofsósi og gefið út margvíslegt efni um menningu skagfirskra byggða.
Á heimasíðu Byggðasafnsins glaumbaer.is kemur fram að búið hafi verið í torfbænum í Glaumbæ allt til ársins 1947 en þá hafi Þjóðminjasafnið tekið við bænum og þann 15. júní 1952 opnaði sýning um mannlíf í torfbæjum en þar er fjöldi muna sem flestir eru tengdir heimilishaldi og verklagi fyrri tíðar. Samningur milli Byggðasafnsins og Þjóðminjasafns Íslands var síðast endurnýjaður árið 2021.
Bærinn í Glaumbæ er samstæða þrettán húsa, segir á heimasíðunni: „Níu þeirra opnast inn í göng sem svo eru kölluð og eru mjór gangur, sem liggur frá bæjardyrum til baðstofu, sem er aftasta húsið í húsaþyrpingunni. Sex húsanna snúa gafli/burstum að hlaði og hægt að ganga inn um þau þaðan. Þetta eru kölluð framhúsin. Inn í eitt bakhúsanna, sem svo eru kölluð, er hægt að ganga og eru það bakdyr bæjarins þar sem heimilisfólk gekk vanalega um.
Á bæjarhólnum, þar sem bærinn stendur, hafa hús staðið í mörg hundruð ár. Bæjarhúsin hafa breyst að stærð og gerð og færst til á hólnum, eftir efnum og ástæðum húsbænda á hverjum tíma. Árið 2002 fundust leifar húsa frá 11. öld, í túninu austur af bæjarhólnum og virðist sem bæjarhúsin hafi verið flutt um set um eða fyrir 1100, um mannsaldri eftir að sagnir herma að Snorri Þorfinnsson, sonur Þorfinns karlsefnis og Guðríðar Þorbjarnardóttur, hafi byggt fyrstu kirkjuna í Glaumbæ. Snorri var fyrsta evrópska barnið, sem sögur fara af, fætt á meginlandi Ameríku.
Glaumbær er torfríkasti bær landsins. Skýringin er sú að grjót í veggjahleðslu er vart að finna í Glaumbæjarlandi, en torfrista er góð. Það má sennilega fullyrða að hvergi í veröldinni sé torf notað í jafnmiklum mæli í jafn stóra byggingu eins og í Glaumbæ. Veggirnir eru hlaðnir úr klömbrum, sniddu og streng. Rekaviður og innfluttur viður eru í grindum og þiljum. Bæjarhúsin eru misgömul að efni og gerð því menn byggðu húsin eftir því hvort þörf var á stærri eða minni húsum er kom að endurnýjun.“
Tvö gömul timburhús hafa verið flutt á safnlóðina í Glaumbæ Áshús og Gilsstofa og segir m.a. svo á heimasíðu safnsins:
Áshús
Í Áshúsinu er hugguleg kaffistofa sem spilar stórt hlutverk í safnheimsókninni og felst í að gefa gestum safnsins tækifæri til að bragða á og njóta veitinga að hætti ömmu og mömmu og upplifa stemningu liðins tíma.
Kaffistofan er í húsi sem flutt var að Glaumbæ frá Ási í Hegranesi og stendur sunnan í gamla bæjarhólnum. Í Áshúsinu er boðið upp á veitingar eins og á borð voru bornar hjá húsmæðrum á 20. öld og ilmar húsið af nýbökuðu bakkelsi, kaffi og heitu súkkulaði. Einnig er boðið upp á hádegismat. Í húsinu má líka sjá sýningar safnsins sem gefa kaffihúsinu skemmtilega og hlýlega umgjörð.
Gilsstofa
Gilsstofan er timburhús frá miðri 19. öld. Stofur, sem svo voru kallaðar, af þessu tagi voru byggðar á stöku stað við torfbæina og voru forverar timburhúsanna sem seinna risu. Stofan var færð fjórum sinnum á milli bæja á árunum 1861-1891. Ferðalögin og notkunin gera sögu hennar einstaka, og þótt upprunalegum viðum fækkaði og innra skipulag hafi breyst, því oftar sem hún var reist, hélst hið stílhreina ytra form.
Ólafur Briem timburmeistari á Grund í Eyjafirði byggði stofu þessa á Espihóli árið 1849 fyrir bróður sinn Eggert Briem. Árið 1861 varð Eggert sýslumaður í Skagafirði og tók stofuna með sér þangað. Húsviðir voru dýrir og fyrirhafnarinnar virði að taka hana niður. Voru viðirnir dregnir á ísum til Akureyrar og skipað um borð í hafskip. Illt var í sjóinn er kom að Hofsósi og ófært að landa stórviðum. Voru þeir því fluttir í örugga höfn á opnum bát inn í Kolkuós og landað þar. Þaðan voru þeir dregnir fram að Hjaltastöðum í Blönduhlíð þar sem stofan stóð til 1872. Þá flutti Eggert yfir að Reynistað og aftur var stofan tekin niður og húsviðirnir dregnir á ísum þvert yfir Héraðsvötn, á nýjan grunn þar sem hún stóð til 1884, eins og myndin sýnir. Húsið var notað til íbúðar, sem skrifstofa og til veisluhalda, svo sem í sýslufundarvikunni, eða sæluvikunni eins og hún var kölluð, því margt var til gamans gert og boðið upp á gamanmál og dansleiki á milli funda. Stofan státar af því að vera elsta „leikhús“ landsins. Þar var sett leikrit á fjalirnar árið 1876.
Árið 1884 varð Jóhannes Ólafsson á Gili sýslumaður Skagfirðinga. Hann fékk sýslukontórinn fluttan heim til sín og stóð stofan á Gili til 1890 er hún var flutt út á Sauðárkrók og farið var að kalla hana Gilsstofu. Á Króknum stóð hún frá 1890-1985 og var notuð til íbúðar og til að hýsa verslun um skeið. Árið 1985 var hún flutt á bíl að Kringlumýri í Blönduhlíð og þar með lauk hringferð hennar um héraðið. Stofan var endursmíðuð í Glaumbæ 1996-1997.
Víðimýrarkirkja
Torfkirkjan á Víðimýri var reist árið 1834 af Jóni Samsonarsyni smið og alþingismanni frá Keldudal. Líklega hefur kirkja fyrst verið reist á Víðimýri fljótlega eftir kristnitöku í landinu. Samkvæmt elsta máldaga frá um 1318 var kirkja á Víðimýri helguð Maríu guðsmóður og Pétri postula. Víðimýrarkirkja er ein af örfáum torfkirkjum sem varðveist hafa á landinu og er meðal gersema í Húsasafni Þjóðminjasafns Íslands. Innréttingar Víðimýrarkirkju bera vitni um rótgróna hefð í sætaskipan íslenskra kirkna eftir siðbreytingu. Karlmenn sátu sunnanvert, heldri menn í kór en konur norðanvert, þær heldri í stúku.
Ýmsir gamlir munir eru í kirkjunni, sumir úr eldri kirkjum á staðnum. Altaristaflan, með ártalinu 1616, er líklega dönsk að uppruna og sýnir miðmyndin síðustu kvöldmáltíðina. Á íslensku er textinn undir altarisbríkinni svohljóðandi: „Svo oft sem þér etið þetta brauð og drekkið af bikarnum, boðið þér dauða Drottins, þangað til hann kemur.“ (1. Kor. 11:26). Prédikunarstóll kirkjunnar er líklega frá 17. öld og eru myndir á honum mjög illa farnar af tímans tönn. Þær sýna Krist í miðju og guðspjallamennina til beggja hliða. Sáluhliðið er frá 1936 en klukkur kirkjunnar eru báðar frá árinu 1630. Margir af eldri gripum Víðimýrarkirkju eru nú varðveittir á Þjóðminjasafni Íslands.
Í upphafi 20. aldar var tvísýnt um afdrif Víðimýrarkirkju en Matthías Þórðarson sem þá var þjóðminjavörður hafði forgöngu um varðveislu hennar og sá til þess að hún komst í umsjá Þjóðminjasafnsins. Kirkjan hefur verið hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands frá 1936 og hefur Byggðasafn Skagfirðinga annast varðveislu- og rekstur hennar samkvæmt samningi frá árinu 2016.
Fornleifadeildin
Fornleifadeild Byggðasafns Skagfirðinga var sett á fót árið 2003 og stendur fyrir og stuðlar að rannsóknum á menningarminjum í Skagafirði og víðar. Starfsemi deildarinnar skiptir verulegu máli fyrir fagleg störf safnsins og ímynd þess ásamt því að efla til fjölbreyttari rannsókna, faglegrar úrvinnslu og betri minjaverndar.
Rannsóknarstarfsemi deildarinnar innan Skagafjarðar markast af rannsóknastefnu safnsins. Lögð er áhersla á að skapa þekkingu á skagfirsku minjaumhverfi, bæði með frumrannsóknum og úrvinnslu og samþættingu rannsókna sem farið hafa fram í héraðinu, í þeim tilgangi að byggja upp héraðsbundna þekkingu, efla áhuga og vitund um sögu og umhverfi og fjölga möguleikum til að nýta menningarminjar, t.d. í ferðaþjónustu. Einnig er áhersla lögð á rannsóknarsamstarf við ýmsa aðila, bæði innan héraðs og utan sem og við erlenda aðila.
Rannsóknir skapa nýja þekkingu og eru forsendur fræðslu og miðlunar en rannsóknum deildarinnar er miðlað áfram t.d. á heimasíðu, samfélagsmiðlum, með umfjöllun í fjölmiðlum, á formi fyrirlestra, rannsóknaskýrsla, greinaskrifa bæði í fræðileg rit og rit almenns eðlis og með sýningagerð.
Vegna samkeppnisumhverfis fornleifarannsókna á Íslandi er rekstur deildarinnar fjárhagslega aðskilinn frá safninu og fjárumsýsla hennar ekki tengd annarri starfsemi þess. Fornleifadeildin er ekki, fremur en safnið, rekin í hagnaðarskyni.
Árið 2016 hlaut Byggðasafn Skagfirðinga Íslensku safnaverðlaunin er þau voru afhent í 10. sinn við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að starfsemi safnsins sé metnaðarfull og yfirgripsmikil, þar sem hlúð er að hverjum þætti safnastarfsins á faglegan hátt. Verðlaunaféð nemur einni milljón króna. Það var Sigríður Sigurðardóttir, þáverandi safnstjóri, sem tók við verðlaununum frá Ólafi Ragnari Grímssyni, sem þá gegndi stöðu forseta Íslands. Verðlaunin voru að sjálfsögðu mikill heiður fyrir safnið og starfsfólk þess og viðurkenning á því metnaðarfulla starfi sem þar er unnið.
Íslensku safnaverðlaunin eru veitt annað hvert ár og er ætlað að vekja athygli á því sem vel er gert á íslenskum söfnum. Þeim er jafnframt ætlað að efla faglegan metnað og vera hvatning til að kynna menningu þjóðarinnar á framsækinn og áhugaverðan hátt. Verðlaunin eru veitt einu safni sem þykir hafa skarað fram úr og vera til eftirbreytni.
Menningararfur í menningarhús
Árið 1998 fékk safnið Minjahúsið á Sauðárkróki til afnota og var þar önnur fastasýning safnsins, á gömlum verkstæðum af Króknum þar sem járn-, tré- og úrsmíðaverkstæði voru í aðalhlutverki, auk annarra sérsýninga. Þar voru einnig skrifstofur fyrir starfmenn sem annast rannsóknir, varðveislu og miðlun auk þess að vera aðalgeymsla safnsins. Breyting varð á þegar til stóð að færa starfsemina í Gránuhúsin á Aðalgötu 21 eftir að sveitarfélagið og Kaupfélag Skagfirðinga höfðu haft makaskipti á húsunum en þau áform fóru í aðra átt eftir að sveitarstjórn ákvað að 1238 sýndarveruleikasetur, sem tileinkað er Sturlungu og Örlygsstaðabardaga, yrði sett þar upp. Byggðasafninu var útvegað bráðabirgðahúsnæði að Borgarflöt 19 þar til menningarhús myndi rísa á Sauðárkróki og hófust flutningar á gripum safnsins úr Minjahúsinu undir lok nóvember 2019, alls 220 bretti.
Nú sér loksins fyrir endann á biðinni eftir menningarhúsi en á atvinnulífssýningunni „Skagafjörður : Heimili Norðursins“, sem haldin var í Íþróttahúsinu á Sauðárkróki í maí sl., rituðu Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar, undir samkomulag um byggingu menningarhúss á Sauðárkróki en það var einmitt á atvinnulífssýningu á sama stað sem viljayfirlýsing var undirrituð um framkvæmdina 2018. Þar er Byggðasafninu ætlað rými fyrir starfsemi sína og safngripi.
Eftir að skrifstofur og aðstaða starfsfólks Byggðasafnsins færðust í Gilsstofu var það svo snemma á síðasta ári sem enn var flutt og þá yfir í prestssetrið í Glaumbæ þar sem vinnuaðstaða er góð og rými til að búa vel að öllu starfsfólki, bæði fastráðnu og sumarstarfsfólki. „Flutningur skrifstofu fornleifadeildar fram í Glaumbæ og aukin starfsemi á svæðinu hefur kallað á bætta aðstöðu og meira rými en Gilsstofan hefur upp á að bjóða. Gilsstofan hefur sinnt hlutverki sínu með mikilli prýði síðustu ár en nú verður loks hægt að gera henni og sögu hennar góð skil og leyfa henni að njóta sín með því að setja þar upp sýningu og opna hana fyrir gestum safnsins. Verða þannig öll húsin á safnsvæðinu aðgengileg fyrir gesti og mynda saman skemmtilega heildarmynd og upplifun,“ segir í frétt Feykis frá þessum tíma. Höfuðstöðvar safnsins í dag eru því í Glaumbæ en varðveislurými þess er á Sauðárkróki.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.