Brosið allsráðandi á afmælisdegi Árskóla
Árskóli á Sauðárkróki fagnaði 25 ára afmæli þann 16. maí síðastiðinn og það eitt og annað gert til að fagna tímamótunum. Feykir hafði samband við listamanninn Guðbrand Ægi Ásbjörnsson, myndmenntakennara með meiru, og sagði hann alla árganga skólans hafa verið með viðburði eða verkefni í sínum stofum eða í matsalnum. „Loppumarkaður á þekjunni, bóksala í tveimur stofum og veitingasala var í matsalnum,. Svo stýrði Logi dansi í íþróttahúsinu en þar voru vinaliðar líka með sína leiki,“ segir Ægir sem hannaði afmælismerki í tilefni tímamótanna.
Hvernig tókst til? „Það var stútfullt af gestum sem heimsóttu þennan vel heppnaða afmælisdag Árskóla. Fólk brosir mikið á Króknum þessa daga og sú stemning var allsráðandi í skólanum,“ segir Ægir og bendir á að allur ágóði af sölu þennan dag renni óskiptur til góðgerðamála.
Er Árskóli góður vinnustaður? „Árskóli er frábær vinnustaður vegna þess að þar er frábært starfslið og margir flottir nemendur.“
Er alltaf jafn gefandi og skemmtilegt að kenna myndmennt? „Það er það. Listin valdi mig til starfa og ég er að sjálfsögðu ánægður með það. Ég hef fengið tækifæri til að stunda launaða vinnu við það sem mér finnst skemmtilegt að gera – sem er ekki sjálfsagt.“
Þú hefur komið að ansi mörgum uppsetningum á árshátíðarverkefnum nemenda skólans, enda búinn að kenna við skólann í 22 ár. Er spennandi að vinna með krökkunum í að skapa og setja metnaðarfull verk á svið? „Það er óhætt að segja að það sé spennandi. Þó að manni finnist stundum að þau séu ekki endilega öll að hlusta á allar leiðbeiningar, þá kemur það alltaf í ljós á frumsýningardag að þau er rúmlega klár í slaginn, rétt eins og Woods á vítalínunni. Það gefur manni að sjálfsögðu mikið að sjá þau blómstra í velheppnaðri sýningu.“
Er einhverjar sýningar sem þér þykir vænst um? „Bros og hlátur eru mikils virði. Torbjörn Egner og hans leikrit og lög eru í miklu uppáhaldi hjá mér.“
Nú létuð þið útbúa boli sem voru skreyttir jákvæðum kommentum nemenda um Árskóla. Hefðir þú fengið að semja eina setningu um Árskóla hvað hefðir þú skrifað? „Takk Árskóli, þú hefur gefið mér óteljandi góðar stundir og auðgað mitt líf.“
Þessar fínu myndir hér að neðan voru fengnar að láni hjá Ómari Braga Stefánssyni og birtust áður á Skín við sólu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.