17. júní í myndum

Hátíðarhöld í tilefni af þjóðhátíðardeginum 17. júní fóru fram í ágætu veðri víða á Norðurlandi vestra, hitastig var um tólf þrettán gráður og bjartviðri. Skipulögð dagskrá fór fram í Austur-Húnavatnssýslu, Húnaþingi vestra og Skagafirði og ríkti fín stemning á öllum vígstöðvum.

Á Blönduósi var dagskráin með hefðbundnu sniði, s.s. farið í skrúðgöngu að Félagsheimilinu, hátíðardagskrá og margt í boði fyrir börn og fullorðna. Tinna Kristín Stefánsdóttir, nýstúdent, var fjallkonan að þessu sinni og hátíðarræðuna flutti Arnar Þór Sævarsson bæjarstjóri. Meðfylgjandi myndir tók Róbert Daníel Jónsson.

Á Hólum í Hjaltadal var það Umf. Hjalti sem hafði veg og vanda af hátíðarhöldum. Skrúðganga var farin frá Bændaskólanum að grunnskólanum með prúðbúna fánabera og hljóðfæraleikara í broddi fylkingar. Krýndir voru sigurvegarar Byrðuhlaupsins og veittar viðurkenningar fyrir þátttöku og einnig var farið í leiki. Ljósmyndir tók Guðríður Magnúsdóttir.

Í Húnaþingi vestra fóru hátíðarhöld fram við Félagsheimilið á Hvammstanga og jafnframt var þjóðbúningamessa í Staðarbakkakirkju þar sem báðir prestar héraðsins, sr. Magnús Magnússon og sr. Guðni Þór Ólafsson, þjónuðu í messunni.Kirkjukórar Hvammstanga og Miðfjarðarsókna sungu undir stjórn Pálínu F. Skúladóttur. Predikun flutti Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri. Að messu lokinni var boðið upp á kaffi suður undir kirkjuvegg. Myndir frá messunni tók Anna Scheving.

Á Sauðárkróki fór meginhluti dagskrárinnar fram á íþróttavellinum. Skrúðganga fór frá Skagfirðingabúð eftir að yngri göngumenn höfðu skellt á sig andlitsmálningu og byrgt sig upp af blöðrum með hjálp skátanna. Sigríður Svavarsdóttir, forseti sveitarstjórnar Svf. Skagafjarðar, flutti hátíðarræðu og fjallkonan flutti ljóð,aðþessu sinni var það Sigurveig Anna Gunnarsdóttir. Í framhaldinu hófust tónleikar og skátatívolí og teymt var undir börnum á hestbaki. Ljósmyndir tók Laufey Kristín Skúladóttir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir