Yfir 140 þátttakendur á Fljótamóti

Yfir 140 keppendur tóku þátt í Fljótamóti í skíðagöngu í dag. Myndir: KSE
Yfir 140 keppendur tóku þátt í Fljótamóti í skíðagöngu í dag. Myndir: KSE

Yfir 140 skíðagöngugarpar skráðu sig til leiks á Fljótamóti í skíðagöngu sem fram fór í dag. Eins og sagt hefur verið frá í Feyki og öðrum fjölmiðlum er mótið, sem nú var haldið í þriðja sinn, orðið það næststærsta á landinu.

Það rættist úr veðri í Fljótum í dag og fór gangan því fram í fremur mildu veðri með dálítilli ofankomu. Þátttakendur létu bleytutíð og erfitt færi ekkert á sig fá en voru mættir á rásmarkið þegar göngunni var startað klukkan 13 í dag. Keppt var í mismunandi aldursflokkum og vegalengdum frá 1 km upp í 20 km göngu.

Það var ólympíufarinn Sævar Birgisson sem sigraði 20 km gönguna. Margar þekktar kempur voru mættar til leiks, ekki síst eldri Fljótamenn, sem lengi hafa verið í röðum fremstu skíðagöngumanna landsins. Gaman er einnig að geta þess að skíðagönguhefðin virðist aftur farin að blómstra í Fljótum því heimamenn höfðu æft af kappi fyrir mótið.

Að göngunni lokinni var glæsilegt kaffihlaðborð á Ketilási og má ætla að alls hafi hátt í 300 manns verið á staðnum. Höfðu mótshaldarar orð á því að sennilega þyrfti að stækka félagsheimilið fyrir næsta mót.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir