Völsungar mörðu Stólana í baráttuleik

Kenny Hogg fagnaði fimmta marki sínu á fjórum dögum í gær. Það dugði þó ekki til sigurs gegni Völsungi. Hér sést hann fagna marki gegn KV á laugardaginn ásamt Benna og Arnari. MYND: ÓAB
Kenny Hogg fagnaði fimmta marki sínu á fjórum dögum í gær. Það dugði þó ekki til sigurs gegni Völsungi. Hér sést hann fagna marki gegn KV á laugardaginn ásamt Benna og Arnari. MYND: ÓAB

Tindastólsmenn brunuðu á Húsavík í gær og spiluðu gegn liði Völsungs. Liðin voru á svipuðum slóðum í 2. deildinni fyrir leikinn en það voru heimamenn sem höfðu betur, sigruðu Stólana 2-1, eftir að Brentton Muhammad markvörður Tindastóls fékk að kíkja á rauða spjaldið um miðjan síðari hálfleik.

Kenny Hogg náði forystunni fyrir Stólana á 41. mínútu með laglegu marki eftir aukaspyrnu sem Konni sendi inn á teig heimamanna. Sæþór Olgeirsson jafnaði metin strax í kjölfarið, eða á sjálfri markamínútunni, en hann fylgdi þá eftir skoti sem Brentton hafði náð að verja. Staðan var því jöfn í hálfleik, 1-1.

Hart var barist í síðari hálfleik og á 64. mínútu gerðist það sem ekki mátti gerast. Þá fór Brentton Muhammad markvörður Tindastóls út að vítateigslínu til að slá boltann og lenti þar í samstuði við leikmann Völsungs og lágu báðir eftir. Brentton fékk hinsvegar að sjá rauða spjaldið hjá dómara leiksins þegar hann komst á fætur, Tindastólsmönnum til mikillar furðu en þeir höfðu frekar reiknað með því að dæmt yrði á sóknarmanninn. Þar sem Brentton er eini markvörður Tindastóls um þessar mundir þá var gripið til þess ráðs að setja varnarjaxlinn Ísak Sigurjónsson í markið og Fannar Kolbeins kom inn í vörnina. Húsvíkingar náðu upp pressu og skoraði Gunnar Jósteinsson sigurmark leiksins á 70. mínútu með skalla af markteig sem Ísak réð ekki við.

Brottrekstur Brenttons var vendipunktur leiksins og vandamál fyrir Stólana að missa hann út því Atli Dagur Stefánsson, varamarkvörður Stólanna, er meiddur og einhverjar vikur væntanlega í að hann verði klár í slaginn. Brentton fær að minnsta kosti eins leiks bann og aðspurður segir Bergmann Guðmundsson, formaður knattspyrnudeildar Tindastóls, að Stólarnir séu að skoða aðra valkosti í stöðunni með tilliti til greinar 10.2 í reglugerð um félagaskipti sem veitir KSÍ heimild til að leyfa félagaskipti markvarða að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Ljóst er að hlutirnir verða að gerast hratt því næsti leikur er á laugardag hér á Króknum þegar lið Hugins frá Seyðisfirði kemur í heimsókn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir