Viðar tilbúinn í troðslu í kvöld þegar Tindastóll og Stjarnan mætast í 18. umferð Subway deildarinnar
Það verður risaleikur í Síkinu á Króknum í kvöld þegar Tindastóll og Stjarnan mætast í 18. umferð Subway deildar karla. Heimamenn allir eru klárir í leikinn, bæði liðið og stuðningsmenn líka sem boðað hafa hitting á Sauðá fyrir leik. Það er ljóst að baráttan er mikil um sæti í úrslitakeppninni en átta efstu liðin fá keppnisréttinn sem öll lið sækjast eftir. Tindastóll er nú í 7. sæti, tveimur stigum ofar en ÍR, Breiðablik og KR sem öll eru með 14 stig og öll að berjast fyrir sæti í lokakeppninni.
Feykir náði í Viðar Ágústsson í morgun sem sagðist lítast mjög vel á leikinn enda langt síðan heimaleikur var í Síkinu. Segir hann mikla spennu í liðinu að taka þennan heimaleik.
Nú er nýlokið landsleikjahléi hjá körfuboltanum en í landsliðinu áttu Stólar tvo menn ásamt því að Baldur Þór er í þjálfarateymi liðsins. Viðar segir að það hafi ekki mikið verið um 5 á 5 æfingar en önnur atriði æfð vel. Þá hefur Covid sett strik í reikninginn en Sigurður Þorsteins og Zoran Vrkic eru að koma til baka eftir smit.
„En við erum klárir í kvöld. Við höfum tapað þrisvar á móti þeim á tímabilinu og ætlum ekki að láta það verða fjórum sinnum, það væri agalegt,“ segir Viðar sem vill sjá fullan sal í kvöld. „Mér sýnist niðurstaðan í þessu vera sú að bæði leikmenn og stuðningsmenn þurfi að vera jákvæðir og hafa trú á verkefninu.“ Viðar segir það hjálpa gríðarlega mikið að hafa fjölda fólks og mikla stemningu í húsinu og hvetur hann alla til að mæta. „Maður finnur aukaorku frá salnum, það er alveg 100%“
Geturðu lofað troðslu í kvöld?
„Já, er það ekki bara. Jú, ég held það bara, það er orðið langt síðan síðast. Ég er tilbúinn í það!“ segir hann spenntur fyrir kvöldinu.
Búið er að boða hitting á Sauðá fyrir leik en þar er boðið upp á Happy hour frá klukkan 16-18 og sem flestir hvattir til að mæta. Þá verður hamborgarasalan á sínum stað í anddyri íþróttahússins.
Miðasala í sjoppunni og á Stubb.
Fjölmennum í Síkið!
Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.