„Við ætlum okkur að eiga gott sumar“
Í gær hófst keppni í 3. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu en lið Tindastóls átti að mæta liði KFG í Garðabænum í dag en samkvæmt vef KSÍ hefur leiknum nú verið frestað og fer ekki fram í dag vegna Covid-ástands í Skagafirði. Feykir hafði í gær samband við Hauk Skúlason, þjálfara Tindastóls, og spurði út í leikmannamál en Stólunum hefur borist liðsauki í þremur nýjum leikmönnum og tveimur sem ekki hafa spilað langalengi með liði Tindastóls.
„Síðustu daga höfum við bætt við okkur þremur nýjum leikmönnum og tveimur fyrrum leikmönnum, þeim Francisco Vano Sanjuan, Raul Sanjuan Jorda, Pape Mamadou Faye, Árna Arnarssyni og Birni Antoni Guðmundssyni,“ segir Haukur. „Þeir þrír fyrstnefndu styrkja okkur fram á við. Við vorum þunnskipaðir í fremstu línu og þurftum á liðsstyrk að halda þar. Francisco, eða Quico eins og hann er kallaður, er leikinn, klókur og áræðinn leikmaður sem getur gert árásir á varnir andstæðinganna. Hann getur spilað á báðum köntum og einnig sem fremsti maður á miðju. Raul er stæðilegur leikmaður sem er góður í uppspili og að tengja línur. Hann leysir nokkrar stöður fyrir okkur, sem framherji, fremstur á miðju og einnig á köntum.
Pape er svo þekktari stærð á Íslandi, hann hefur sannað að hann getur skorað mörk í efstu deildum. Pape er gríðarlega sterkur, með góðan hraða og auga fyrir mörkum.
Þá tvo síðastnefndu þarf vart að kynna fyrir neinu Tindastóls fólki. Uppaldir heimamenn sem eru komnir aftur þangað sem þeir byrjuðu. Þeir munu koma með mikla reynslu og þekkingu í liðið sem mun nýtast okkar yngri leikmönnum mikið. Árni er fjölhæfur og getur leyst flestar stöður á vellinum. Með frábæran fót og mikla sendingargetu og svo einnig áræðni og gott hugarfar. Björn, eða Böddi, er svo hafsent með mikla ró og yfirvegun. Spilar vel útúr vörninni og hefur góða skipulagshæfileika og talanda.“
Haukur segir reyndar að Árni muni gera út frá Reykjavík og verði til taks í einhverjum leikjum en Böddi mætir á Krókinn í júní. Árni spilaði með liði Tindastóls þar til haustið 2013 en þá skipti hann yfir í HK. Böddi skipti yfir í ÍR haustið 2014 en báðir kapparnir hafa lítið spilað síðustu ár en þeir hafa strítt við meiðsli. Spánverjarnir tveir eru mættir en eru ekki komnir með leikheimild og því ekki löglegir í dag. Pape mætir á Krókinn nú eftir helgi.
Hvernig leggst tímabilið í lið Tindastóls? „Við erum orðnir mjög spenntir fyrir því að byrja mótið og að geta borið okkur saman við önnur lið. Við ætlum okkur að eiga gott sumar og vonumst til þess að stuðningsmenn okkar geti átt góðar stundir á vellinum í sumar,“ segir Haukur að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.