Tollflokkun pizzaosts staðfest enn á ný | Atli Már Traustason skrifar
Þann 17. febrúar sl. kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp dóm í hinu „seinna pizzaostmáli“ Danóls ehf. á hendur íslenska ríkinu.
Um þetta mál hefur verið fjallað áður fyrir dómstólum og ítrekað hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að flokka ætti vöruna í 4. kafla tollskrár. Danól krafðist þess nú enn á ný að varan skyldi flokkuð í 21. kafla tollskrárinnar en tapaði málinu og var dæmt til að greiða ríkinu 950 þús. kr. í málskostnað.
Um niðurstöðu héraðsdóms
En fyrst um forsendur hins nýuppkveðna dóms. Forsendur héraðsdóms eru ítarlegar og vel rökstuddar. Þar er m.a. ítrekað vísað til dóms Landsréttar í „hinu fyrra pizzaostmáli“ þar sem kröfu Danóls ehf. um að tollflokka pizzaostinn í 21. kafla var hafnað. Reyndar gengur héraðsdómur svo langt að segja fullum fetum að dómur Landsréttar sé bindandi fordæmi um hvernig skuli flokka pizzaostinn í 4. kafla tollskrár enda hafi lög og reglur ekki breyst um þetta atriði. Þá hafnar héraðsdómur alfarið samsæriskenningum Danóls ehf. um að dómstólar hafi verið leyndir gögnum eða að einhverjir stjórnsýslulegir annmarkar hafi verið á meðferð málsins. Orðrétt segir:
„Andstætt því sem [Danól] heldur fram gefur ekkert til kynna að ómálefnaleg sjónarmið hafi legið til grundvallar hinu umþrættabindandi áliti eða að blekkingar hafi verið viðhafðar af háIfustarfsmanna [Skattsins].“
Er þessi tilvitnun einungis eitt dæmi af mörgum þar sem sjónarmiðum Danóls ehf. er hafnað af hálfu héraðsdóms.
Fréttatilkynning Félags atvinnurekenda
Samdægurs birti Félag atvinnurekenda (FA) fréttatilkynningu á heimasíðu sinni. Í ljósi áforma fjármála- og efnahagsráðherra um að breyta tollalögum sem gera dómstólameðferðina að markleysu er rétt að fara nokkrum orðum um þessa fréttatilkynningu.
Í fréttatilkynningu FA er tekið viðtal við lögmann Danóls ehf. Að sögn hans er þessi dómur einungis „fyrsta dómstig“, það hafi verið „fyrst og fremst formsatriði að fá dóm Héraðsdóm til að áfrýja [...]. Til Landsréttar fer málið núna og þar má búast við að málið vinnist að fullu.“ Telja verður að þessi yfirlýsing sé nokkuð brött í ljósi þess að þetta mál hefur efnislega tapast nú tvisvar fyrir héraðsdómi, einu sinni fyrir Landsrétti, verið hafnað áfrýjunarleyfi fyrir Hæstarétti og tapast fyrir Endurupptökudómi.
Fullyrðingar um Evrópusambandið
Næsti hluti umfjöllunar FA er eins og svo oft áður villandi. Þar er fjallað um áform fjármála- og efnahagsráðherra um að breyta tollalögum sem munu ógilda endurteknar dómsniðurstöður íslenskra dómstóla og færa handvirkt tollflokkun pizzaostsins úr 4. kafla tollskrár í 21. kafla hennar – en með þeim gerningi verður varan án tolla.
Síðan segir: „Fyrir liggur að Evrópusambandið telur endurtollflokkun íslenska ríkisins á pitsuostinum brjóta gegn bókun 3 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.“ Hér er enn og aftur vísað til afstöðu ESB án þess að nánar sé farið í þá tímalínu. Í dómnum frá 17. febrúar sl. kemur hins vegar eftirfarandi af hálfu lögmanns ríkisins (stefnda) um tímalínuna:
„… 2007 hafi verið gerður sérstakur landbúnaðarsamningur milli Íslands og Evrópusambandsins á grundvelli 19. gr. EESsamningsins sem hafi falið í sér niðurfellingu tolla á ýmsum viðkvæmum landbúnaðarvörum og úthlutun tollkvóta áskilgreindum upprunavörum en þessi samningur hafi leyst af hólmi eldri landbúnaðarsamning frá árinu 1972. Uppfærður samningur við samninginn frá 2007 hafi verið innleiddur í maí 2018. Umrædd vara falli undir vörur sem skilgreindar hafa verið eftir tollskrárnúmerum samkvæmt samningnum frá árinu 2007 og uppfærslu við hann. Samningurinn feli í sér ákveðnar skuldbindingar fyrir vörur sem tollflokkaðar séu í vörulið 0406.“
Af þessu verður að draga þá ályktun að ESB hafi á einhverjum tímapunkti talið mjólkurost ost í skilningi 4. kafla tollskrár en svo breytt afstöðu sinni.
Aldrei hefur fengist skýring á þessum fullkomna viðsnúningi ESB en líkleg ástæða eru útflutningshagsmunir bandalagsins. Það munar um það að fá á einu bretti a.m.k. 5-10% af mjólkurframleiðslu Íslands, ígildi 10 kúabúa hið minnsta, með einu pennastriki. Það er jafnmikið og mjólkurframleiðsla allra mjólkurbúa á Austurlandi.
Rangfærslur um dómstóla
Framkvæmdastjóri FA, getur ekki stillt sig um að ljúka fréttatilkynningu FA með frekari rangfærslum. Orðrétt segir: „Í sjálfu sér er staða málsins óbreytt í bili eftir þennan dóm. Héraðsdómur hefur í tvígang verið ósammála alþjóðastofnunum um umgengni við alþjóðlegu tollskrána. Það er erfitt að trúa því að Landsréttur komist að sömu niðurstöðu en um leið ástæða til að fagna því að ný ríkisstjórn taki alþjóðlegar skuldbindingar Íslands alvarlega.“
Það er e.t.v. ekki rangt að staðan er óbreytt í bili, en rangt að halda því fram að til staðar sé skylda til að fara eftir niðurstöðu alþjóðlegra stofnana . Í 189. gr. Tollalaga er nefnilega heimild en ekki fortakslaus skylda fyrir ráðherra til að líta til úrlausna af vettvangi Alþjóðatollastofnunarinnar eins og segir í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. Í þessum dómi fylgir héraðsdómur þeirri meginreglu að dómar æðri dómstóls (Landsréttar) bindi lægra setta dómstóla (héraðsdómstóla) – m.ö.o. dómar Landsréttar eru fordæmi. Héraðsdómur hann fylgir fordæmi Landsréttar eins og honum ber skylda til að íslenskum lögum.
Þá er það rangt að fullyrða að ný ríkisstjórn Íslands taki alþjóðlegar skuldbindingar alvarlega þegar hún áformar lagabreytingu til að gera umræddan pizzaost tollfrjálsan. Eins og fram kemur í hinum nýja héraðsdómi og í öðrum dómsniðurstöðum þá gera alþjóðlegar skuldbindingar einmitt ráð fyrir því að íslenskir dómstólar eigi síðasta orðið í þessu máli. Ríkisstjórn sem leggur fram lagafrumvarp til að ómerkja niðurstöður íslenskra dómstóla virðir þessar alþjóðlegu skuldbindingar, um að landsdómstólar eigi síðasta orðið, að vettugi.
Niðurlag
Mál þetta er með öllu fordæmalaust. Það sem þó er alvarlegast er að sú aðför að réttarríkinu, sem viðhöfð er af áhrifamiklum hagsmunasamtökum og fjármála- og efnahagsráðherra, til höfuðs hagsmunum bænda sem hafa byggt upp starfsemi sína á grundvelli laga og samninga gerðra á grundvelli þeirra í góðri trú.
Atli Már Traustason, bóndi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.