Forsendur nærandi ferðaþjónustu og framtýðarsýn atvinnugreinarinnar
Dagana 11.-13. mars fer fram ráðstefna á Siglufirði og Hólum í Hjaltadal, á vegum Nordic Regenerative Tourism, sem er samstarfsverkefni fimm Norðurlanda, fjármagnað af norrænu ráðherranefndinni og stýrt af Íslenska Ferðaklasanum, þar sem þátttakendur fá innsýn í forsendur nærandi ferðaþjónustu og framtíðarsýn atvinnugreinarinnar.
Allir sem áhuga hafa á sjálfbærni, ferðaþjónustu og nærandi viðskiptaháttum eru hvattir til að kynna sér metnaðarfulla dagskrá ráðstefnunnar. Nánari upplýsingar má finna á heimsíðu Íslenska Ferðaklasans.
Freyja Rut Emilsdóttir framkvæmdastrjóri 1238 og Gránu Bistró á Sauðárkróki segir að ferðalög snúast ekki bara um að ferðast á vinsæla staði og taka myndir fyrir samfélagsmiðla. Við ferðumst til að upplifa það sem er ólíkt því sem við þekkjum úr okkar daglega lífi, til að skoða stórbrotna náttúru, upplifa menningu, læra um sögu og hefðir og kynnast einhverju nýju. Ferðamenn sem sækja Ísland heim eru yfirleitt fullir af áhuga á að upplifa eitthvað nýtt og öðruvísi. Við sem störfum í ferðaþjónusta höfum metnað fyrir því að þjónusta þetta áhugasama fólk, sýna þeim landið, kynna þeim menningu okkar og sögu, matarhefðir, myndlist, bókmenntir og tónlist, svo fátt eitt sé nefnt. En við viljum ekki gera það á kostnað heimafólks, eða valda átroðningi á menningu og náttúru. Fólk, hvort sem það eru íbúar, starfsfólk í ferðaþjónustu eða gestir svæðisins, eru hluti af sama vistkerfi sem bæði hafa áhrif og verða fyrir áhrifum hvert af öðru. Sjálfbærni er ekki lengur val, heldur nauðsyn í öllum rekstri. Markmiðið er að byggja upp rekstur og framboð þjónustu sem hefur jákvæð áhrif. Fjöldi ferðamanna er þannig ekki eiginlegt markmið í sjálfu sér, heldur það að tryggja ábyrga framkvæmd og sjálfbæran vöxt þegar kemur að efnahagslegum, samfélagslegum og menningarlegum þáttum og að starfa í sátt milli gesta, starfsfólk og heimafólks. Hugtakið nærandi ferðaþjónusta snýst um ganga skrefinu lengra og hafa jákvæð áhrif á áfangastaðinn, menninguna, samfélagið – að næra samfélagið, næra menninguna og næra efnahaginn.
Nærandi viðskiptahættir og jákvæð áhrif eru leiðarljós í öllum ákvörðunum sem teknar eru í rekstri 1238 og Gránu Bistró, hvort heldur sem er í tækni og nýsköpun, menningarviðburðahaldi eða veitingarekstri. Við hér í Skagafirði og á norðurlandi öllu eigum urmul af ferðaþjónustufyrirtækjum sem vinna í anda nærandi ferðaþjónustu, kannski stundum án þess að átta sig á því. Ferðaþjónustan skapar störf, kaupir hráefni af birgjum úr héraði, bæði matvælaframleiðendum og handverksfólki, miðlar staðbundinni sögu og stendur fyrir sögu- og menningartengdum viðburðum, ferðaþjónustan skapar meðvitund meðal erlendra gesta um verndun viðkvæmrar náttúru og dýrastofna, styrkir íþrótta- og æskulýðsstarf með fjölbreyttum hætti og svo mætti lengi telja.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.