Vesturbæingar kræktu í Covid-smit og koma ekki á Krókinn í kvöld

Það var eftirvænting á Króknum fyrir leik Tindastóls og KR í Subway-deildinni sem fram átti að fara í Síkinu í kvöld en því miður hefur leiknum verið frestað þar sem upp kom Covid-smit í leikmannahópi Vesturbæinganna. Vegna smita, ýmist í leikmannahópi Tindastóls eða andstæðinga þeirra, hefur Tindastólsliðið aðeins leikið tvo leiki síðustu sex vikurnar og vonandi eru kapparnir okkar enn með á hreinu hvað snýr upp og niður á boltanum.

Næsti leikur Tindastóls fer því væntanlega fram nk. fimmtudag en þá eiga strákarnir að spila við Grindavík suður með sjó. Grindvíkingar lutu í lægra haldi í Vesturbænum sl. föstudagskvöld og það væri auðvitað eftir öllu að þeir hafi smitast þar.

Covid-smit komu upp hjá liði Tindastóls fyrir jólin og í framhaldinu þurfti að fresta þremur leikjum. Strákarnir náðu að spila tvo leiki 10. og 14. janúar áður en smit blossaði upp aftur í hópnum en leikjum við Breiðablik í síðustu viku og KR núna hefur verið frestað vegna smita í herbúðum andstæðinga Stólanna.

Það þéttist því væntanlega eitthvað leikjaplanið hjá liðunum í Subway-deildinni því flest liðin hafa lent í frestunum þannig að þau hafa ýmist spilað 12, 13 eða 14 leiki. Spurning hvort það þarf ekki að hafa þetta eins og í yngri flokkunum, skella bara á nokkrum helgar turneringum og klára málið?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir