Veisla í Mathúsi Garðabæjar höllinni
Tindastólsmenn buðu stuðningsmönnum sínum upp á létta veislu í Mathús Garðabæjar höllinni í gærkvöldi. Þar mættust þau tvö lið sem spáð hafði verið tveimur efstu sætunum fyrir tímabilið, Stjarnan og Tindastóll, og er skemmst frá því að segja að Stólarnir tættu forréttinn í sig og Garðbæingar voru aldrei nálægt því að komast með tærnar þar sem Tindastólsmenn höfðu hælana við þetta hlaðborð. Eins og góðum gestum sæmir þá gáfu Stjólarnir heimamönnum nokkra bita af eftirréttinum þannig að lokatölurnar voru ekki verulega meiðandi, 68–77 fyrir Tindastól, sem situr nú í efsta sæti Dominos-deildarinnar ásamt Keflvíkingum og Njarðvíkingum.
Beðist er velvirðingar á þessum Svala-húmor í inngangi en staðreyndin er sú að Stólarnir náðu fljúgandi starti, komust í 0-6 og síðan 4-18 þegar fimm mínútur voru liðnar, og heimamenn voru einfaldlega aldrei nálægt því að koma sér inn í leikinn eftir það. Brynjar Þór hóf leikinn á þristi og Danero bætti öðrum við og strax í upphafi voru Stólarnir að spila sem lið á báðum endum á meðan sóknarleikur Stjörnunnar var vandræðalegur. Stjörnumenn gerðu vel í því að taka Pétur úr úr leiknum – hann klæddist finnskum frakka allan fyrri hálfleik – en Dino, Brynjar og Danero voru stöðug ógn fyrir utan og Urald King, sem þurfti að eiga við Hlyn Bærings, setti skotin sín utan úr teig niður og heimamenn þurftu því að leggja mikla vinnu í varnarleikinn til að stöðva sóknarvopn Stólanna. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 10-22 en í öðrum leikhluta var leikurinn jafnari.
Lið Tindastóls var yfirleitt með 10-14 stiga forystu og heimamenn náðu aldrei upp stemningu í sókninni. Það var að sjálfsögðu ekki að hjálpa þeim að vörn Stólanna gerði þeim endalaust erfitt fyrir og þröngvaði þeim í erfið skot en 3ja stiga nýting Stjörnunnar var þó í raun fyrir neðan allar hellur. Fyrstu 16 3ja stiga skot liðsins geiguðu, oft mjög illa, og það var ekki fyrr en í fjórða leikhluta sem skotin fóru að falla með Garðbæingum en þá má líka segja að Stólarnir hafi verið farnir að gefa smá slaka í vörninni.
Stjarnan minnkaði muninn í níu stig rétt fyrir hálfeik en Danero svaraði með þristi, Collin Pryor setti niður skot en Brynjar Þór kórónaði fínan fyrri hálfleik með fáránlegum þristi. Staðan 27-40.
Stjarnan reyndi að komast inn í leikinn í þriðja leikhluta en í hvert sinn sem þeir virtust við það að koma muninum niður fyrir tíu stigin þá stigu Stólarnir upp og náðu að slökkva vonir heimamanna. Munurinn var orðinn átján stig, 33-51, um miðjan þriðja leikhluta og það var helst Ægir Þór sem hélt uppi merki Stjörnunnar en þó var hann ansi mistækur í leiknum. Aftur náðu Stjörnumenn að klóra í bakkann en gerðu sig síðan seka um slæm mistök sem gáfu Stólunum nokkrar auðveldar körfur. Staðan að loknum þriðja leikhluta 41-60 fyrir Tindastól og þrátt fyrir smá stolt í Stjörnumönnum þá voru þeir aldrei að ógna sigri gestanna. Lokatölur 68-77.
Liðsheild Tindastóls var sterk í gærkvöldi og virtust menn hafa mikla ánægju af því að spila saman sem lið og að spila af fullum krafti. Brynjar Þór og Dino áttu báðir mjög góðan leik. Brynjar setti niður fimm af átta 3ja stiga skotum sínum auk þess að tvívegis var brotið á honum fyrir utan línuna sem gaf sex vítaskot. Dino Batorac átti einn sinn besta leik með liði Tindastóls í vetur, gerði 14 stig og tók níu fráköst. Urald og Danero voru öflugir og þó bekkjarbræður gerðu ekki mörg stig þá voru allir á sömu línunni. Philip Alawoya, sem leysir nú Urald King af fram að áramótum, var í hópnum í fyrsta skipti og náði sér í tæpar níu mínútur. Hann er ólíkur King og þarf að sjálfsögðu einhvern tíma til að komast inn í leik Tindastóls. Vonandi verður hann fljótur að ná áttum.
Í liði Stjörnunnar virtist vanta alla stemningu og samheldni. Landsliðsmaðurinn Ægir Þór var mest áberandi í leik liðsins en Stólunum gekk bísna vel að loka á Hlyn Bærings sem gerði 10 stig og tók 11 fráköst, en þar af aðeins tveimur sóknarfráköstum sem er sannarlega ólíkt honum. Paul Anthony Jones III er frábær leikmaður en í gær gekk honum illa að koma sér inn í leikinn þó hann endaði stigahæstur Stjörnumanna með 18 stig. Skotnýting hans var 67% en sem betur fer fékk hann boltann sjaldan. Finninn, Antti Kanervo, hitti illa framan af leik en datt síðan í gírinn í fjórða leikhluta en þá setti hann fjóra þrista.
Næsti leikur Tindastóls verður í Síkinu 22. nóvember þegar lið ÍR kemur í heimsókn en Breiðhyltingar hafa verið að gera vel án Matta Sig sem glímt hefur við meiðsli. Að þeim leik loknum tekur við landsleikjahlé og því ekkert spilað í Dominos-deildinni í tvær vikur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.