Vanda staðfestir framboð til formanns KSÍ
„Þá er það staðfest, ég ætla að bjóða mig fram til áframhaldandi setu sem formaður KSÍ. Ég er stolt af þeirri vinnu sem hefur átt sér stað og er þakklát stjórn, starfsfólki og þjálfurum KSÍ, ásamt fólkinu í hreyfingunni. Starfið er vissulega krefjandi en eftir erfiða mánuði er bjart framundan og ég brenn af áhuga fyrir því að fá að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem framundan er,“ segir Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður Knattspyrnusambands Íslands í Facebook-skilaboðum sl. föstudag.
Vanda tók við sem formaður KSÍ til bráðabirgða sl. haust þegar stjórn sambandsins sagði af sér í kjölfarið á erfiðum málum sem tengdust MeToo og ásökunum um ofbeldi landsliðsmanna gagnvart konum.
Í frétt á Fótbolti.net segir að ársþing KSÍ fari fram þann 26. febrúar nk. en ekki hafi aðrir aðilar tilkynnt um formannsframboð þó vitað sé að Páll Magnússon, fyrrum alþingismaður, og Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, íhugi framboð. Sævar var í nokkur ár yfirmaður íþróttamannvirkja í Sveitarfélaginu Skagafirði og þjálfari mfl. karla hjá Tindastóli sumarið 2009.
„Verkefnin framundan eru mörg og spennandi, að efla knattspyrnufélögin í landinu og styrkja barna og unglingastarfið. Við þurfum að setja kraft í að bæta aðstöðuna um land allt, koma þjóðarleikvangsmálum á stað, styrkja landsliðin og efla orðspor KSÍ. Ég er ákaflega stolt af þeim grunni sem við í stjórn KSÍ og starfsfólk höfum lagt á undanförnum mánuðum til áframhaldandi uppbyggingar," segir Vanda í samtali við Fótbolti.net en viðtalið má lesa hér >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.