Vængir Júpíters unnu nauman sigur á Kormáki/Hvöt

Keppni í 3. deildinni í knattspyrnu hófst í gær og þar spruttu Húnvetningar fram á Fjölnisvöllinn undir sameiginlegu merki Kormáks/Hvatar. Andstæðingarnir voru Vængir Júpíters sem er einskonar B-lið Fjölnis í Grafarvoginum reykvíska. Heimamenn náðu yfirhöndinni snemma leiks en gekk illa að hrista af sér nýliðina en það fór svo að lokatölur urðu 2-1 fyrir Grafarvogspiltana.

Daníel Smári Sigurðsson kom þeim vængjuðu yfir eftir 12 mínútna leik og á 33. mínútu bætti nafni hans, Daníel Ingvar Ingvarsson, við öðru marki heimamanna. Ekki gerðu þeir fleiri mörk í leiknum en á fjórðu mínútu uppbótartíma venjulegs leiktíma skoraði Ingvi Rafn Ingvarsson fyrir lið Kormáks/Hvatar en það dugði ekki til að þessu sinni.

Tólf lið taka þátt í 3. deildinni og munu Húnvetningar spila næsta leik sinn á útivelli um næstu helgi, mæta þá liði ÍH í Skessunni í Hafnarfirði, en áætlað er að fyrsti heimaleikur Kormáks/Hvatar fari fram á Blönduósvelli 21. maí.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir