Upp á topp með Tindastól! - Létt upphitun með stuðningsmannasöngvum.
Það er ekki laust við að spenningur sé allsráðandi hjá körfuboltaunnendum í dag þar sem úrslitaleikur Subway deildarinnar fer fram í Origo-höllinni á Hlíðarenda í Reykjavík fyrir sunnan. Varla þarf að minna á að þarna takast á lið Tindastóls og Vals í körfuboltanum og fer sigurliðið heim með Íslandsmeistarabikarinn. Af því tilefni dustum við rykið af þekktum stuðningsmannalögum Stólanna.
Gríðarleg eftirspurn hefur verið eftir miðum og fengu færri en vildu. Nokkurs pirrings gætti á samfélagsmiðlum þegar ljóst var að stuðningsfólk Tindastóls fengu takmarkaðan aðgang að miðum en reglan er að aðkomuliði er tryggður 30% miðafjölda sem seldur var á Króknum. Freistuðust margir Stólastuðningsmenn er búa sunnan heiða að kaupa miða á Hlíðarenda en kvörtuðu yfir því að hafa lent í ósanngjarnri síu þar sem miðarnir voru einkum ætlaðir stuðningsfólki Vals enda ljóst að uppselt yrði á leikinn löngu fyrir keppnisdag.
En nú er bara fyrir miðalausa að finna sér annan stað til að horfa á leikinn og eru margir kostir í stöðunni. Byrjum á því að nefna Stöð2 sport, sem einnig er hægt að nálgast á netinu vefsjónvarphttps://sjonvarp.stod2.is/live.
Á Facebook-síðu körfuboltadeildar Tindastóls kemur fram að í Skagafirði verði hægt að koma saman á nokkrum stöðum til að fylgjast með leiknum.
Króksbíó - skráning hér https://forms.gle/xAjRp3ssLmNdeJ1x6 kostar 1500 kr. og fer allur ágóði til kkd Tindastóls. Húsið opnar kl. 19:30.
Grand - inn, leikurinn sýndur.
Sauðá - leikurinn sýndur.
Hótel Varmahlíð - leikurinn sýndur.
„Í borginni býður Ölver stuðningsmönnum Tindastóls enn og aftur í heimsókn fyrir fimmtu og síðustu viðureign Tindastóls og Vals.
Húsið opnar 17:00 og verður lagt af stað í Origo höllina 18:30.
Um upphitun sjá nokkrir af fræknustu skemmtikröftum fjarðarins:
Úlfur Úlfur!
Sverrir Bergmann!
Auðunn Blöndal!
Dósi!!
og að sjálfsögðu bregður stuðningsmannasveitin á leik!“ segir á síðu deildarinnar.
Ef fleiri eru að sýna leikinn má hafa samband og þeim bætt inn í upptalninguna hér.
Leikurinn hefst klukkan 20:15 í kvöld og best að fara að rifja upp alla stuðningsmannasöngvana sem finna má á veraldarvefnum jafnvel þótt sumir beri þess merki að vera til stuðnings knattspyrnunni.
Áfram Tindastóll!
Posted by Körfuknattleiksdeild Tindastóls on Fimmtudagur, 21. apríl 2022
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.