Ungt lið Stólastúlkna fékk skell gegn liði ÍBV
Stólastúlkur léku í gær þriðja leik sinn í A deild Lengjubikarsins en að þessu sinni mættu þær liði ÍBV og var leikið í Akraneshöllinni. Úrslitin voru ekki alveg þau sem vonast var eftir en Vestmanneyingar gerðu sex mörk án þess að okkar stúlkur næðu að svara fyrir sig en það skal þó tekið fram að lið Tindastóls var talsvert laskað.
All nokkur Covid-veikindi, meiðsli og fleira varð til þess að Tindastóll gat ekki teflt fram sínu sterkasta liði. Meðal annars voru Kristrún, Bergljót, Hrafnhildur og Lara Margrét fjarri góðu gamni og Mur, Hugrún og Ásdís Aþena fóru út af í hálfleik en þá var staðan 1-0 eftir að Olga Sevcova skoraði. Þóra Björg Stefánsdóttir gerði næstu tvö mörk á 53. og 62. mínútu áður en Olga bætti við fjórða markinu fimm mínútum síðar. Lið ÍBV gerði síðan tvö mörk í blálokin, fyrsta Ameera Hussen á 88. mínútu og Kristín Erna Sigurlásdóttir á 91. mínútu.
Það voru því ansi margir ungir, sprækir en óreyndir fætur sem drógu lið Tindastóls yfir endalínuna í gær en stór hluti liðsins var skipaður 14-17 ára gömlum stúlkum sem eiga heiður skilinn fyrir að standa í lappirnar gegn Bestu deildar liði ÍBV. Næst mæta stelpurnar Bestu deildar liði Selfoss sem enn er án stiga í riðlinum og um aðra helgi koma svo Stjörnustúlkur í heimsókn á Krókinn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.