Tvær fernur í sigurleik á Egilsstöðum

Fernurnar tvær, Mur og Vigdís, kampakátar með sigurinn í dag. MYND: HALLDÓR HLÍÐAR KJARTANSSON BÍLSTJÓRI
Fernurnar tvær, Mur og Vigdís, kampakátar með sigurinn í dag. MYND: HALLDÓR HLÍÐAR KJARTANSSON BÍLSTJÓRI

Tindastóls í 2. deild kvenna skellti sér upp að hlið Augnabliks á toppi deildarinnar með öruggum 0-8 sigri á liði Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis en leikið var Vilhjálmsvelli í dag. Stelpurnar gerðu fjögur mörk í hvorum hálfleik og í þeim báðum skiptu Murielle og Vigdís mörkunum systurlega á milli sín.

Fyrir leikinn hafði Augnablik úr Kópavogi náð efsta sætinu af Stólastúlkunum en þær áttu tvo leiki inni á lið Tindastóls fyrir rétt rúmri viku. Síðan þá höfðu stelpurnar úr Kópavogi spilað þrjá leiki og unnið þá alla naumlega. Þær voru því með 33 stig á toppi deildarinnar en með sigrinum í dag náði Tindastóll að jafna þær að stigum en lið Augnabliks er með betri markatölu. Liðin, sem bæði hafa tryggt sér sæti í 1. deild að ári, mætast síðan á Króknum í hreinum úrslitaleik um efsta sætið í 2. deild um næstu helgi og þá dugar Stólastúlkum ekkert annað en sigur.

Það var Murielle Tiernan sem gerði fyrstu tvö mörkin í dag, það fyrsta eftir stundarfjórðung og annað markið á 33. mínútu. Vigdís Edda Friðriksdóttir skoraði tveimur mínútum síðar og bætti við öðru marki sínu á 38. mínútu og staðan 0-4 í hálfleik.

Vigdís náði þrennunni á 47. mínútu og síðan fernunni 58. mínútu og þá var komið að markamaskínunni Mur að jafna afrek Vigdísar með því að skora tvö mörk á þriggja mínútna kafla, nánar tiltekið á 65. og 68. mínútu. Lokatölur því 0-8 á Egilsstöðum.

Leikur Tindastóls og Augnabliks fer fram næstkomandi sunnudag, 2. september, og hefst kl. 14:00 og þá verða stuðningsmenn Tindastóls að fjölmenna á völlinn og hvetja stelpurnar til sigurs – það er ekkert annað undir í leiknum en fyrsti titill kvennaliðsins! 

Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir