Treyja Helga Freys upp í rjáfur á morgun

Á morgun fara fram síðustu leikir í Subway deild karla þetta tímabilið og ræðst þá hverjir raðast saman þegar ný keppni hefst, úrslitakeppnin sjálf. Tindastóll tekur þá á móti Þór Akureyri  klukkan 19:15 en áður en upphafsflautið gellur mun treyja númer 8 verða hengd upp í rjáfur í Síkinu með viðhöfn.

Það er ástæða til að hvetja alla sem ætla á leikinn á morgun að mæta snemma og upplifa þá stund er treyja Helga Freys Margeirssonar verður hengd upp en ógleymanlegt er hvernig Helgi Freyr gladdi stuðningsmenn Tindastóls og reyndar körfuboltaáhorfendur alla með sínum eiturmögnuðu þristum, yfirvegaða spili og mikilli útgeislun á vellinum áður en hann lagði skóna á hilluna.  Helgi kom inn í þjálfarateymi Tindastóls fyrir skömmu og hvort það sé tilviljun eða ekki þá hefur liðið ekki tapað leik síðan og það stendur ekki til á móti Þór annað kvöld.

Stjórn Kkd. Tindastóls setti eftirfarandi umsögn um Helga á Facebooksíðu deildarinnar á haustdögum 2019 eftir að ljóst var að Helgi léki ekki meira með liðinu:

Helgi Freyr Margeirsson ákvað fyrir þetta tímabil að leggja skónna á hilluna góðu. Helgi er Tindastólsmaður í húð og hár og hefur spilað sem slíkur lengst af sínum ferli.

Helgi er fæddur á hinu ágæta ári 1982 og spilaði upp yngri flokka Tindastóls, ásamt því að vera fyrirliði síns árgangs í yngri landsliðum Íslands. Helgi spilar sinn fyrsta leik í meistaraflokki aðeins 14 ára gamall tímabilið 1996-1997 og spilaði hann með Tindastól þangað til hann fór til Bandaríkjanna til að mennta sig árið 2002. Hann lék með Jefferson Chargers í High School (2000-2001) og háskólanám við Birmingham-Southern College í Bandaríkjunum (2002-2005) þar sem hann var á fullum skólastyrk, spilaði með Þór á Akureyri (2005-2006) og Randers Cimbria (2006-2009) í Danmörku áður en hann kom aftur heim í fjörðinn fagra tímabilið 2009 – 2010. Helgi hefur verið lykil-leikmaður í uppgangi Tindastóls síðan hann kom aftur bæði innan vallar sem utan. Frábær liðsfélagi sem var til í aðstoða liðið eða liðsfélaga á hvaða hátt sem þurfti. Það sýndi sig mjög vel til dæmis þegar ungt og óreynt lið Tindastóls fór alla leið í úrslit árið 2015. En eftir 22 ára feril sem meistaraflokksleikmaður eru skórnir komnir upp í hillu.

Körfuknattleiksdeild Tindastóls vill koma miklum þökkum til Helga Freys og hans fjölskyldu fyrir hans framlag til Tindastóls í gegnum þessi 22 ár, en án heimamanna sem eru tilbúnir að leggja sig alla fram fyrir klúbbinn er ekki hægt að ná þeim árangri sem Tindastólsliði hefur náð síðustu ár.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir