Töfrastund Tindastóls í troðfullu Síkinu

Tinda-Tinda-Tindastóll! MYND: HJALTI ÁRNA
Tinda-Tinda-Tindastóll! MYND: HJALTI ÁRNA

Lið Tindastóls og Keflavíkur mættust í kvöld í fimmtu og allra síðustu viðureign liðanna í átta liða úrslitum Subway-deildarinnar. Bæði lið höfðu unnið tvo leiki og sigurvegarinn átti því víst sæti í undanúrslitum þar sem andstæðingurinn yrði deildarmeistarar Njarðvíkur. Reiknað var með hörkuleik og stuðningsmenn liðanna streymdu í Síkið sem aldrei fyrr. Viðureignin reyndist hin besta skemmtun fyrir heimamenn því lið Tindastóls mætti í miklu stuði til leiks, tók snemma góða forystu sem gestirnir voru hreinlega aldrei nálægt að vinna upp. Lokatölur 99-85 og Stólarnir því áfram í undanúrslitin.

Síkið var pakkað upp í rjáfur löngu áður en flautað var til leiks en samkvæmt tölfræði á vef KKÍ voru 1350 áhorfendur í húsinu og stemningin fallegri en orð fá lýst.

Það var Valur Orri Valsson sem hóf veisluhöldin en kappinn gerði fyrstu tíu stig gestanna og kom þeim í 4-10. Það kom hins vegar fljótt í ljós að allt lið Tindastóls var á eldi og viljinn og baráttan miklu meiri Stólamegin en hjá gestunum úr Keflavík sem voru fljótlega farnir að líta út eins og menn sem voru ekki í stuði fyrir eitthvað vesen og læti. Hvað eftir annað var boltanum stolið af gestunum og þegar sjö mínútur voru liðnar var staðan 21-12. Á síðustu mínútu fyrsta leikhluta gerðu Pétur, Axel og Bess þrjár 3ja stiga körfur og Stólarnir höfðu náð 15 stiga forystu, 32-17, að leikhlutanum loknum. Tarvydas lagaði stöðuna fyrir gestina í byrjun annars leikhluta en þá hrökk maður leiksins, Taiwo Badmus, í gang og gerði næstu tólf stig Stólanna og staðan orðin 44-23 eftir þriggja mínútna leik. Munurinn var þó yfirleitt í það minnsta 15 stig fram að hléi og í hálfleik var staðan 56-41.

Það var augljóslega rosalega gaman hjá Badmus í kvöld og hann ákvað að bjóða Milka ítrekað upp í dans í byrjun síðari hálfleiks en það væri synd að segja að þeir hafi dansað í takt. Hvað eftir annað sendi Badmus Milka út í móa og skaust framhjá honum og lagði boltann í körfuna. Hann gerði 15 stig í röð. Gestunum gekk því ekkert að saxa á forskot Stólanna og staðan að loknum þriðja leikhluta var 78-59. Keflvíkingar hófu þó fjórða leikhlutann ágætlega og náðu að minnka muninn í 13 stig, 78-65, en í kjölfarið fylgdu körfur frá Badmus, Bess og Vrkic og mestur varð munurinn 27 stig þegar fjórar mínútur voru til leiksloka, staðan 94-67. Fljótlega skipti Baldur síðan ungu mönnunum inn á, enda sætur sigurinn í höfn.

Mögnuð liðsheild Tindastóls

Sem fyrr segir þá spilaði allt Tindastólsliðið glimrandi leik frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Þetta var alvöru liðsframmistaða í vörn og sókn, Stólarnir spiluðu fast og fengu á sig margar villur en það virtist setja gestina út af laginu. Að öðrum ólöstuðum þá átti Taiwo Badmus hreint frábæran leik í kvöld, gerði 38 stig og var með 78% skotnýtingu. Pétur var sömuleiðis þrælgóður með átta stig, sjö fráköst og átta stoðsendingar og Hannes Ingi átti flotta innkomu. Bess var með 19 stig, Vrkic 12, Arnar 9, Hannes 6, Siggi 4 og Axel 3. Svo má ekki gleyma þætti stuðningsmanna Tindastóls – ef það hefur ekki verið gaman að spila í Síkinu í kvöld ... ja þá hvenær?!

Valur Orri var stigahæstur Keflvíkinga með 18 stig og Milka og Tarvydas 15 hvor. Enginn leikmanna gestanna náði sér almennilega á strik í leiknum ef frá eru taldar fyrstu 90 sekúndur leiksins hjá Vali Orra. Það var einfaldlega þannig að í kvöld fundu Hjalti og hans menn engin svör við leik Tindastóls.

Niðurstaðan að átta liða úrslitum loknum er því sú að fjögur efstu liðin í deildarkeppninni eru öll komin áfram í fjögurra liða úrslit í úrslitakeppninni. Lið Tindastóls mætir Njarðvíkingum, sem eiga heimavallarréttinn, og síðan mætast Þór Þorlákshöfn og Valur í hinni rimmunni. Nú er eins gott að það sé eitthvað eftir af nöglum til að naga – hvernig ætli byrgðastaðan sé á nöglum í versluninni Eyri?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir