Tindastólsmenn mæta Haukum í undanúrslitum
Í gærkvöldi varð ljóst hvaða lið mætast í undanúrslitum Dominos-deildarinnar í körfubolta. Fyrir leik Stjörnunnar og Njarðvíkur voru KR, Tindastóll og Haukar búin að tryggja sig áfram og þegar æsilegum leik var lokið í Garðabænum höfðu Njarðvíkingar bæst í þann hóp. Njarðvíkingar mæta því KR-ingum en Haukar fá Tindastól og verður fyrsti leikur liðanna í Hafnarfirði nk. sunnudagskvöld.
Úrslitakeppnin hefur verið bráðskemmtileg hingað til og óvænt úrslit litið dagsins ljós. Tindastólsmenn voru komnir á mikla siglingu fyrir lok deildarkeppninnar, þó svo það dygði aðeins fyrir sjötta sætinu í deildinni, og fóru frekar létt með að slá út lið Keflavíkur sem hafði endað í þriðja sæti.
Þó svo að lið Njarðvíkur sé mikið stemningslið voru ekki margir sem reiknuðu með að þeim tækist að slá út sterkt lið Stjörnunnar en Njarðvík endaði í 7. sæti deildarinnar en Stjarnan í 2. sæti. Enn færri reiknuðu með að allir fimm leikir í þeirri rimmu mundu vinnast á útivelli! Ekki kom það á óvart að KR-ingar fóru létt með að sópa Grindvíkingum úr keppni.
Andstæðingar Tindastóls í undanúrslitum, Haukar úr Hafnarfirði, enduðu í fjórða sæti í deildarkeppninni og mættu liði Þórs frá Þorlákshöfn. Leikir liðanna voru spennandi og óhætt að fullyrða að Hafnfirðingar hafi farið Krísuvíkurleiðina áfram því þeir urðu fyrir áföllum í öllum leikjum liðanna. Kaninn þeirra þótti óíþróttamannslegur og stuttur kveikjuþráður kom honum í klandur; brottrekstur og bann. Kári Jónsson meiddist í fyrsta leik en kom sterkur til baka í þriðja leik og átti síðan stjörnutakta í fjórða leik liðanna sem Haukar kláruðu í Þorlákshöfn og einvígið þar með 3-1.
Fyrsti leikurinn í undanúrslitum verður í Hafnarfirði á sunnudaginn kl. 19:15 þegar Haukar og Tindastóll mætast á Ásvöllum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.