Tindastólsmenn léku við hvurn sinn fingur gegn Völsurum

Hester var góður í gærkvöldi. Hér er hann í leik gegn Þórsurum fyrr í vetur. MYND: HJALTI ÁRNA
Hester var góður í gærkvöldi. Hér er hann í leik gegn Þórsurum fyrr í vetur. MYND: HJALTI ÁRNA

Valsmenn komu norður í Síkið í gærkvöldi og léku við lið Tindastóls sem þurfti nauðsynlega að ná sér á strik eftir dapra frammistöðu gegn ÍR á dögunum. Það gekk eftir því Stólarnir hafa sennilega átt einn sinn albesta leik í vetur, vörnin var frábær og sóknarleikurinn oft á tíðum glimrandi þannig að Valsmenn virtust vart vita á köflum á hvora körfuna þeir áttu að sækja. Allir leikmenn Tindastóls komust á blað og niðurstaðan sterkur sigur, lokatölur 103-67.

Leikurinn fór vel af stað og mikill hraði. Skotin voru þó ekki að detta í blábyrjun en það var Uraid King sem kom Valsmönnum yfir, 0-2, með tveimur vítum en þeim kappa var að mestu pakkað saman það sem eftir lifði leiks og endaði með aðeins sjö stig. Annar Valsari, Gunnar Ingi Harðarson, setti niður tvo þrista fyrir Val á næstu mínútum en hann var langbestur Valsara í gærkvöldi og endaði með 26 stig. Stólarnir komust loks yfir þegar rúmar fimm mínútur voru liðnar með troðslu frá Hester, sem var heldur betur kominn í gírinn. Hester bætti við sjö stigum á stuttum kafla og Stólarnir yfir, 18-10, en þá skipti Martin bekkjarmönnum inn á og þeir voru smá stund að finna taktinn þannig að Valsmenn minnkuðu muninn í 21-19 áður en fyrsti leikhluti var úti.

Fyrstu mínútur annars leikhluta voru hreint jólakonfekt fyrir stuðningsmenn Stólanna. Valsarar byrjuðu á að brjóta á Helga Margeirs í 3ja stiga skoti og kappinn setti niður öll þrjú vítin. Hann setti síðan þrist í næstu sókn og þá kviknaði á Björgvini Ríkharðs, hann setti niður lay-up og Helgi gerði síðan annan þrist. Þá tróð Björgvin með tilþrifum, Viðar lagði boltann í körfuna og Helgi skaut einum langdrægum og staðan orðin 39-19 – semsagt 18-0 kafli. Nú var nánast sama hver skaut að körfu Valsmanna það fór nánast allt niður. Stólarnir komust í 57-29 en gestirnir gerðu síðustu sjö stigin í hálfleiknum og staðan 57-36.

Valsmenn urðu fyrir því áfalli í öðrum leikhluta að þeirra stærsti maður, Birgir Björn Pétursson með alla sína 205 sentimetra, varð að hætta leik eftir að hann og Viðar ráku hausa saman. Þetta bitnaði eðlilega á varnarleik Valsmanna og þá var Uraid King kominn í villuvandræði, fékk sína fjórðu villu um miðjan þriðja leikhluta. Þetta hentaði Brandon Garret, varakanans í liði Tindastóls ágætlega, því þegar hann kom inn á þá höfðu Valsarar fá vopn til að eiga við hann og Garrett gekk á lagið og gerði 12 stig á síðustu fimm mínútum þriðja leikhluta og Stólarnir yfir, 86-56, fyrir lokakaflann.

Sá kafli var lítið spennandi eins og gefur að skilja. Tveir leikmanna gestanna til viðbótar enduðu meiddir á bekknum og Valsarar því aldrei líklegir til að þjarma að forystu heimamanna. Fátt markvert gerðist í fjórða leikhluta en það gladdi þó stuðningsmenn Tindastóls þegar Finnbogi Bjarna setti niður flauelsþrist úr sínu eina skoti í leiknum þegar tæpar tvær mínútur voru eftir, staðan 101-67, og þar með voru allir leikmenn Stólanna komnir á blað. Þá var það eitt eftir að Friðrik Stefáns træði boltanum í körfu Valsara sem kappinn gerði glottandi í þann mund sem leiktíminn rann út.

Allt lið Tindastóls lék vel í gærkvöldi sem sést kannski best á því að byrjunarliðið gerði 53 stig en bekkurinn 50. Hester spilaði tæpar 22 mínútur en endaði leikinn með 25 stig, Sigtryggur Arnar hefur hitt betur en í gær en hann átti engu að síður frábæran leik, endaði með 15 stig, fimm stoðsendingar og sjö stolna bolta. Pétur var með átta stig og níu stoðsendingar og Garrett 14 stig og átta fráköst. Tindastólsmenn hafa eflaust verið með undanúrslitaleikinn í Maltbikarnum gegn Haukum nú á miðvikudaginn á bak við eyrað, því aðeins tveir leikmenn spiluðu meira en 22 mínútur í leiknum en engu að síður var mikil keyrsla á leikmönnum liðsins á meðan þeir voru inn á. Í liði Vals var Gunnar Ingi eini leikmaðurinn sem eitthvað kvað að en hann gerði 26 stig og var eini Valsarinn sem gerði meira en tíu stig í leiknum.

Chris Caird var ekki í leikmannahópi Tindastóls gegn Val en hann hefur lítið komið við sögu í vetur og virðist stríða við þrálát meiðsli. Hann spilaði þó í um tíu mínútur gegn ÍR á dögunum. Í viðtali við Vísi.is eftir leikinn í gær sagði Israel Martin, þjálfari Stólanna, að tekin hefði verið sú ákvörðun að Caird hætti að spila í bili vegna meiðsla hans en menn telji það vera best fyrir hann og körfuboltaferil hans. Það eru sannarlega vondar fréttir fyrir lið Tindastóls enda Englendingurinn ein besta skytta deildarinnar þegar hann er á fjölinni.

Tölfræði á vef KKÍ > 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir