Tindastólsmenn heimsækja Breiðholtið í fyrsta undanúrslitaleiknum þann 4. apríl
Það varð loks ljóst í gærkvöldi hverjir yrðu andstæðingar Tindastóls í undanúrslitum Dominos-deildarinnar þegar deildarmeistarar Hauka mörðu spræka Keflvíkinga í oddaleik í Hafnarfirði. Þar sem þau fjögur lið sem enduðu í efstu fjórum sætunum í deildinni eru öll komin áfram þá mæta Haukar liðinu í fjórða sæti, KR, og ÍR, sem vermdi annað sætið, fær lið Tindastóls í heimsókn.
Leikdagar hafa þegar verið ákveðnir og verður fyrsti leikur í rimmu ÍR og Tindastóls í Breiðholtinu miðvikudaginn 4. apríl en fyrsti heimaleikur Tindastóls í einvíginu er sunnudaginn 8. apríl. Þriðji leikurinn er síðan 11. apríl fyrir sunnan og fjórði leikur liðanna verður í Síkinu föstudaginn 13. apríl (!) og ef til þarf verður fimmti leikurinn 16. apríl.
Kani ÍR-liðsins, Ryan Taylor, verður í banni í fyrstu tveimur leikjunum gegn Tindastóli en hann var dæmdur í þriggja leikja bann eftir fólskulegt brot á Hlyni Bærings á dögunum. Það þarf hinsvegar enginn að velkjast í vafa um að lið ÍR mætir dýrvitlaust til leiks gegn Stólunum en baráttan hefur verið þeirra aðalsmerki í vetur. ÍR-ingar eru það lið, ásamt liði Njarðvíkur, sem voru Stólunum hvað erfiðastir í vetur og unnu báða leikina gegn okkar strákum í Dominos-deildinni. Stólarnir lögðu ÍR þó á leiðinni að Maltbikartitlinum þannig að þetta ættu að verða baráttuleikir þar sem ekkert verður gefið.
Þegar liðin mætast þann 4. apríl verða Tindastólsmenn búnir að hvíla í 12 daga, heldur lengur en lið ÍR, og vonandi ekkert ryð í mannskapnum. Sennilega hafa menn notað tímann vel til að hvílast, jafna sig og æfa fyrir komandi átök en fyrst Stólarnir voru komnir í æfingu með kústinn, eftir að hafa sópað Grindvíkingum úr Síkinu á dögunum, þá voru þeir fengnir til að sópa sand og möl af bílastæðum bankastofnananna við Skagfirðingabrautina í gær auk þess að þrífa glugga. Að því verki loknu var haldið á æfingu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.