Tindastólsmenn enn að í Lengjubikarnum
Tindastóll spilaði við lið Hamars í gær í 8 liða úrslitum í C-deild Lengjubikarsins og var spilað á Domusnovavellinum í Reykjavík. Hvergerðingar komust yfir um miðjan fyrri hálfleik en Stólarnir svöruðu að bragði og gerðu síðan sigurmarkið í síðari hálfleik en þá voru Króksararnir orðnir einum færri. Lokatölur því 2-1 fyrir Tindastól.
Ágúst Marel Gunnarsson kom liði Hamars yfir á 23. mínútu en Addi Ólafs jafnaði eftir glæsilega sendingu frá Konna. Staðan 1-1 í hálfleik og allt í járnum í hörkuleik. Tindastóll missti Domi út af með rautt spjald á 55. mínútu eftir að hann tók niður leikmann sem var sloppinn i gegn. Þrátt fyrir að vera einum færri í um 35 mínútur náðu Tindastólsmenn að tryggja sér sigurinn eftir hornspyrnu. Jónas tók frábæra spyrnu á fjærsvæðið þar sem Sverrir var manna sterkastur og skallaði boltann á Konna sem lagði boltann i markið við mikin fögnum Stólanna.
Undir lok leiksins færðu Hamarsmenn sig framar á völlinn til að reyna að jafna en þess i stað fengu Tindastólsmenn tvö dauðafæri til að gulltryggja sigurinn. Allt kom þó fyrir ekki og Stólarnir tryggðu 2-1 sigur á móti sterku liði Hamars og eru þar með komnir i undanúrslitin í C-deild Lengjubikarsins.
„Þetta var mjög sterkur sigur liðsheildarinnar. Við spiluðum i raun nokkuð vel nánast allan fyrri hálfleikinn og sköpuðum góð færi. Það sýnir frábæran karakter hjá liðinu að koma til baka eftir að hafa fengið mark á sig og svo aftur eftir að hafa lent einum manni færri. Við vorum hrikalega þéttir varnarlega og strákarnir spiluðu skynsamlega og skiluðu sigrinum heim,” sagði Donni þjálfari í samtali við Feyki.
Í hinum leiknum í fjögurra liða úrslitunum hafði Hvíti riddarinn betur gegn Álftanesi, 2-0. Tindastólsmenn mæta síðan liði Ýmis á Sauðárkróksvelli á sunnudaginn og verður flautað til leiks kl. 16:30. Úrslitaleikurinn fer síðan fram 7. maí.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.