Tindastólsmenn á fljúgandi siglingu í Kjarnafæðismótinu

Jóhann Daði Gíslason fagnar marki í fyrra. MYND: ÓAB
Jóhann Daði Gíslason fagnar marki í fyrra. MYND: ÓAB

Lið Tindastóls lék þriðja leik sinn í B-deild Kjarnafæðismótsins í gær þegar þeir mættu liði KA3 á KA-vellinum. Illa gekk að skora framan af leik en síðustu tíu mínútur fyrri hálfleiks reyndust Stólunum gjöfular en þá gerðu strákarnir út um leikinn með fjórum mörkum. Lokatölur leiksins voru 6-1 og lið Tindastóls með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir.

Það var Benedikt Kári Gröndal sem opnaði markareikninginn með marki á 38. mínútu og tveimur mínútum síðar bætti Konni (bróðir Donna) við öðru marki. Jónas Aron gerði þriðja markið á markamínútunni alræmdu (43) og Bragi Skúla sprautaði glassúrnum yfir góðan kafla Stólanna með marki á 45. mínútu.

Markamaskínan Jóhann Daði (!) bætti við fimmta marki Stólanna á 55. mínútu en á 77. mínútu lagaði Breki Baldursson stöðuna fyrir Akureyringa. Jón Gísli Stefánsson átti þó síðasta orðið í gær og kórónaði góðan sigur Stólanna með marki á 81. mínútu.

Allir 17 leikmenn á skýrslu hjá Stólunum fengu að spreyta sig í gær. Lið Tindastóls á eftir að spila einn leik í mótinu en það verður væntanlega hreinn úrslitaleikur um efsta sætið í riðlinum. Mótherjinn er lið Hamranna á Akureyri. Leikurinn átti að fara fram um síðastliðna helgi en var frestað vegna ófærðar og ekki er komið á hreint hvenær hann verður spilaður. Lið Tindastóls er með níu stig eftir þrjá leiki en Hamrarnir sex stig eftir tvo leiki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir