Tindastóll með öruggan sigur á liði Keflvíkinga í fyrsta leik

Leikmenn Tindastóls taka vel til matar síns að leik loknum í boði Árna á Hard Wok Café. MYND AF FB-SÍÐU KÖRFUKNATTLEIKSDEILDAR TINDASTÓLS
Leikmenn Tindastóls taka vel til matar síns að leik loknum í boði Árna á Hard Wok Café. MYND AF FB-SÍÐU KÖRFUKNATTLEIKSDEILDAR TINDASTÓLS

Úrslitakeppni Subway-deildarinnar í körfuknattleik fór í gang í kvöld og það voru lið Tindastóls og Keflavíkur sem riðu á vaðið. Stólarnir höfðu unnið sjö síðustu leiki sína í deildinni og mættu til leiks þrútnir af sjálfstrausti, enda varð leikurinn hin besta skemmtun fyrir stuðningsmenn Stólanna því liðið sýndi sínar bestu hliðar og skellti Keflvíkingum af miklu öryggi. Lokatölur 101-80 og það er lið Tindastóls sem nær í fyrsta sigurinn í rimmu liðanna sem mætast að nýju í Keflavík nk. föstudag.

Það var heilmikið sjó í gangi fyrir leikinn og stemningin eins og hún gerist best í Síkinu. Einhver skjáfti var þó í báðum liðum á upphafsmínútunum og illa gekk að setja boltann í körfuna. Hörður Axel splæsti í þrist þegar tæpar þrjár mínútur voru liðnar en Arnar svaraði að bragði. Síðan var nánast jafnt á öllum tölum þar til staðan var 17-17 en þá sigldu Vrkic og Badmus sitt hvorum þristinum heim í höfn og heimamenn skyndilega komnir með undirtökin. Staðan var 26-20 að loknum fyrsta leikhluta og Bess og Badmus gerðu fyrstu körfur annars leikhluta og Stólarnir komnir með ágætt forskot. Mestur varð munurinn 19 stig um miðjan leikhlutann eftir körfur frá Arnari og Vrkic en gestirnir náðu að saxa aðeins á þennan mun síðustu mínúturnar fyrir hlé en þá var tólf stiga munur, staðan 49-37.

Hörður Axel hóf síðari hálfleik líkt þeim fyrri með því að smella niður þristi og næstu mínútur hótuðu Keflvíkingar að saxa enn frekar á forskotið. Arnar var ekkert í stuði fyrir svoleiðis rugl, hann setti niður þrist og kom Stólum ellefu stigum yfir, 55-44, og síðan fylgdi eitt víti frá Sigga og þristur frá Pétri. Eftir þetta náðu Keflvíkingar aldrei að koma muninum niður fyrir tíu stig og fljótlega varð ljóst að heimamenn ætluðu ekkert að gefa þennan leik eftir. Staðan var 74-57 að loknum þriðja leikhluta og síðan varð það nokkuð ljóst snemma í fjórða leikhluta að gestirnir höfðu litla trú á því að geta snúið leiknum sér í vil og leikurinn varð ansi losaralegur í framhaldinu.

Keflvíkingar réðu illa við Stólana í kvöld – já, eða bara ekkert...

Arnar Björnsson átti frábæran leik í kvöld og sá var nú aldeilis klár í slaginn. Var óhræddur við að skjóta á körfuna og endaði með fjóra stolna bolta í það minnsta og var endalaust að þvælast fyrir gestunum. Í raun var leikur Tindastóls í heildina mjög vel útfærður, leikmenn voru að verjast af krafti og Keflvíkingum gekk illa að ráða við hraðann og áræðnina í sóknarleik Tindastóls. Stólarnir voru harðir í horn að taka og söfnuðu villum grimmt framan af leik og það virtist setja gestina út af laginu.

Arnar var stigahæstur í liði Tindastóls með 25 stig, Badmus var sömuleiðis í rallígírnum og skilaði 24 stigum, Bess endaði með 17 stig og níu fráköst og þá vöðlaði Vrkic upp 16 stigum en hann setti niður fjóra þrista í fimm tilraunum. Rétt er að árétta að allir leikmenn skiluðu fínu framlagi og verulega gaman að sjá liðið í stuði í kvöld. Í liði Keflvíkingar var Króksarinn Valur Orri Valsson stigahæstur með 17 stig en atkvæðamestur var Darius Tarvydas sem gerði 15 stig og tók níu fráköst.

Tölfræði af vef KKÍ >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir