Þrjár kempur til liðs við Kormák/Hvöt

Anton, Ante og Benni. MYND AF FB SÍÐU AÐDÁENDAKLÚBBS KORMÁKS
Anton, Ante og Benni. MYND AF FB SÍÐU AÐDÁENDAKLÚBBS KORMÁKS

Nú er rétt um mánuður í að Húnvetningar hefji leik í 3. deildinni í knattspyrnu en fyrsta umferðin hefst 6. maí en þá á lið Kormáks/Hvatar útileik gegn Vængjum Júpiters á Fjölnisvelli. Húnvetningar hafa verið að styrkja hópinn sinn og á aðdáendasíðu Kormáks má sjá að nú í byrjun apríl hafa þrír leikmenn bæst í hópinn; þeir Anton Ingi Tryggvason, Benjamín Jóhannes Vilbergsson og Ante Marčić.

Á síðunni segir: „Anton Ingi Tryggvason er ungur heimamaður sem ætlar að taka slaginn með Kormáki Hvöt í sumar. Anton fengið félagaskipti frá Dalvík, en hann hefur einnig leikið með Samherjum síðan hann fór frá Hvöt árið 2020.“ Króatann Ante er sagður iðinn og kvikur miðjumaður sem spilaði með Reyni Sandgerði tímabilið 2020 en hann er miðjumaður og kemur frá liði NK Kamen.

Um vistaskipti Benna Blönduósings segir umsjónarmaður síðunnar m.a.: „Heimamaðurinn Benjamín Jóhannes Gunnlaugarson hefur fengið félagaskipti í Kormák Hvöt. Heimkoma Benna er Aðdáendasíðunni mikið fagnaðarefni, enda einn sterkasti núspilandi Húnvetningurinn í boltanum. Síðasti leikur hans undir fánum Hvatar kom árið 2010.“ Benni er ákaflega lipur og skemmtilegur leikmaður sem hefur glatt stuðningsmenn Tindastóls síðan árið 2011, fyrst með sameiginlegu liði Tindastóls og Hvatar, en einnig hefur hann haft viðkomu í liði Drangeyjar og Hamars.

Benni hefur spilað ríflega 250 leiki með Stólunum en erfið meiðsli héldu honum á hliðarlínunni allt síðasta sumar. Fyrsta leik sinn í meistaraflokki spilaði hann með Hvöt gegn Gróttu í 2. deild sumarið 2008, þá 16 ára gamall, kom inn á á 77. mínútu skv. leikskýrslu á vef KSÍ. Í heildina hefur Benni skilað 292 leikjum og gert í þeim 39 mörk.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir