Þrír Íslandsmeistaratitlar á einni viku
Snjólaug M. Jónsdóttir í Skotfélaginu Markviss hefur gert það gott að undanförnu en á laugardaginn varð hún Íslandsmeistari í Norrænu trappi (Nordisk Trap) í keppni sem háð var á skotíþróttasvæði Skotfélags Akraness. Skor Snjólaugar á mótinu var 102 dúfur sem er það næsthæsta sem náðst hefur hérlendis í kvennaflokki en Íslandsmetið á hún sjálf frá því í fyrra, 114 dúfur.
Þetta er þriðji Íslandsmeistaratitillinn sem Snjólaug hampar á innan við viku en helgina á undan varði hún Íslandsmeistaratitil sinn í kvennaflokki í Skeet og einnig varð hún Íslandsmeistari í flokkakeppni. Um næstu helgi keppir Snjólaug svo á Bikarmóti STÍ í Reykjavík þar sem hún hefur góða möguleika á að verja bikarmeistaratitil sinn frá í fyrra að því er segir á Facebooksíðu Skotfélagsins Markviss.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.