Þrefaldur skagfirskur sigur

Sigurlið Varmahliðarskóla ásamt grænklæddum stuðningsmönnum. Mynd:skolahreysti.is
Sigurlið Varmahliðarskóla ásamt grænklæddum stuðningsmönnum. Mynd:skolahreysti.is

Skagfirðingar áttu góðu gengi að fagna í gær þegar keppt var í fyrsta riðli Skólahreysti á þessu ári. Skólarnir þrír, Varmahlíðarskóli, Grunnskólinn austan Vatna og Árskóli, skiluðu frábærum árangri og röðuðu sér í þrjú efstu sætin.

Varmahlíðarskóli vann nokkuð öruggan sigur með 63 stig og tryggði sér þar með sæti í úrslitakeppninni í Laugardalshöll sem háð verður í lok apríl. Þetta er fjórða árið í röð og í sjötta sinn á átta árum sem liðið ber sigur úr býtum sem er svo sannarlega stórglæsilegur árangur. Varmhlíðingar áttu fyrsta sætið í upphífingum, dýfum og hraðaþraut, annað í armbeygjum og það níunda í hreystigreip. Grunnskólinn austan Vatna varð í öðru sæti riðilsins með 54,5 stig og í þriðja sæti var Árskóli með 52 stig. Húnavallaskóli lenti í fimmta sæti með 45,5 stig og Blönduskóli varð í því áttunda með 34,5 stig. Alls kepptu tólf skólar í þessum riðli.

Lið Varmahlíðarskóla skipa þau Steinar Óli Sigfússon, Óskar Aron Stefánsson, Herdís Lilja Valdimarsdóttir og Lydía Einarsdóttir. Varamenn eru Einar Kárason og Þóra Emilía Ólafsdóttir. „Það er síðan hún Sigurlína Hrönn Einarsdóttir íþróttakennari sem á mikið hrós skilið fyrir að kveikja áhuga, setja saman kraftmikil lið og halda utan um æfingar. Stuðningssveit 7.-10. bekkjar lét ekki sitt eftir liggja og hvatti sitt fólk til dáða,“ segir á heimsíðu Varmahlíðarskóla.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir