Þóranna Ósk íþróttamaður Skagafjarðar
Í kvöld fór fram athöfn í Ljósheimum þar sem tilkynnt var um val á íþróttamanni-, liði- og þjálfara Skagafjarðar 2018. Auk þess voru hvatningarverðlaun UMSS veitt og viðurkenningar fyrir landsliðsþátttöku keppenda og þjálfara aðildarfélaga UMSS. Lið ársins er meistaraflokkur Tindastóls kvenna í knattspyrnu, þjálfari var valinn Sigurður Arnar Björnsson og íþróttamaður Skagafjarðar er Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir.
Þóranna var að vonum ánægð þegar Feykir náði tali af henni eftir kjörið. „Þetta er það sem maður stefnir á. Ég hef unnið þetta einu sinni áður en var meidd árið eftir svo það er kærkomið að uppskera eins og maður sáir.“ Þóranna segir líðandi ár hafa verið sitt besta hingað til og æfingar gengið vel fyrir utan óhapp sem henti í byrjun desember er hún hlaut heilahristing í körfuboltaleik en Þóranna keppir með meistaraflokki kvenna í fyrstu deildinni í Íslandsmótinu.
„Ég hef ekki getað æft neitt síðan en ég stefni á að keppa á næsta ári en bara spurning hvenær ég byrja. En ég er bjartsýn á, alla vega sumarið. Kemur í ljós með veturinn.“ Þóranna vill hvetja unga iðkendur til að vera duglega að æfa, þótt árangur sjáist ekki strax. „Það tók mig t.d. mörg ár að bæta mig. Maður verður alltaf að halda áfram,“ segir nýkjörinn íþróttamaður Skagafjarðar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.