Þær sunnlensku voru sjúllaðar í Síkinu
Stólastúlkur spiluðu síðasta heimaleik sinn í 1. deild kvenna í körfunni þetta tímabilið í gær en þá kom sameinað lið Hamars og Þórs í heimsókn. Að þessu sinni reyndust gestirnir sterkari aðilinn og fór Astaja Tyghter mikinn í liði þeirra, gerði 47 stig. Eftir ágæta byrjun Stólastúlkna þá náðu gestirnir yfirhöndinni skömmu fyrir hlé og liði Tindastóls gekk illa að minnka forskotið í síðari hálfleik – eða í raun bara alls ekki. Lokatölu 69-82.
Leikurinn var jafn í fyrsta leikhluta en lið Hamars Þórs náði sjö stiga forystu, 10-17, þegar rétt rúmar tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum. Fanney og Anna Karen skelltu þá í þrista, Eva Rún kom liði Tindastóls yfir, 18-17, Astaja setti niður eitt víti fyrir gestina en síðasta orðið átti Maddie þegar hún splæsti í þrist og staðan 21-18. Stólastúlkur héldu forystunni fyrstu mínútur annars leikhluta, komust í 26-21 eftir þrist frá Ingigerði, en smá saman dró saman með liðunum og hin fertuga Julia Demirer jafnaði leikinn, 29-29, þegar leikhlutinn var rúmlega hálfnaður. Maddie kom heimaliðinu þremur stigum yfir, 37-34, þegar tvær mínútur voru í hálfleik en þær reyndust daprar hjá Stólastúlkum því gestirnir náðu 10-0 kafla og leiddu í hléi, 37-44.
Lið Hamars Þórs náði fljótlega að koma muninum yfir tíu stigin og um miðjan þriðja leikhluta var staðan 44-59. Tvær körfur frá Maddie löguðu stöðuna en gestirnir leiddu 51-64 að loknum þriðja leikhluta. Fimm stig frá Önnu Karen minnkuðu muninn í átta stig í upphafi fjórða leikhluta og gáfu von um endurkomu. Astaja átti hins vegar alltaf svar í sókn gestanna, snögg og áræðin og hún átti alltof auðvelt með að búa sér til skot. Í hvert sinn sem lið Tindastóls náði muninum niður fyrir tíu stigin náðu gestirnir að svara fyrir sig og því fór sem fór.
Maddie gerði 27 stig fyrir lið Tindastóls en tók „aðeins“ 14 fráköst að þessu sinni en þær voru nokkrar hávaxnar í liði Hamars Þórs sem náðu að gera henni erfitt um vik. Eva Rún gerði 14 stig og átti fimm stoðsendingar, Anna Karen var með átta stig, Klara Sólveig sjö, Ingigerður sex, Fanney María fimm og Inga Sólveig tvö. Astaja gerði ríflega helming stiga gestanna, 47, og tók að auki ellefu fráköst og þá var Julia Demirer öflug með ellefu stig og 17 fráköst.
Þess má geta að þetta var annar leikur Stólastúlkna á tveimur dögum og síðata leik sinn í vetur spilar liðið síðan annað kvöld. Þetta er nú varla boðlegt?
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.