Það væsir ekki um skíðafólk í Skagafirði
Það er hið ágætasta veður á Norðurlandi vestra í dag, reyndar skýjað en vindur lítill og hiti yfir frostmarki. Það ætti því ekki að væsa um skíðakappa sem ýmist renna sér til ánægju á skíðasvæðinu í Tindastóli eða taka þátt í árlegu skíðagöngumóti í Fljótum sem hófst nú kl. 13:00.
Það er Ferðafélag Fljóta sem stendur fyrir skíðagöngumótinu í Fljótum. Gengnar verða fjölbreyttar gönguleiðir við allra hæfi, með hefðbundinni aðferð í öllum flokkum barna, unglinga og fullorðinna.
Veðurstofan gerir ráð fyrir afar rólegu og fallegu veðri á morgun, laugardag, nánast logni en smávægilegu frosti víðast hvar á Norðurlandi vestra og heiðskýru. Útlit er fyrir svipað veður út páskahelgina, raunar skýjuðu á páskadag en áfram svona stilltu og hita í kringum frostmark.
Opið verður á skíðasvæðinu í Tindastóli til kl. 16 í dag og væntanlega frá kl. 10-16 út helgina ef Feyki skjöplast ekki.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.