Syntu Drangeyjarsund í dag
Sjósundskonurnar Harpa Hrund Berndsen og Sigrún Þuríður Geirsdóttir syntu Drangeyjarsund í dag. Sennilega er Drangeyjarsund (Grettissund) þekktasta sjósund sem synt hefur verið við Íslandsstrendur og þykir mikið afrek. Afrekið felst í því að synda um 7 km leið frá Drangey að Reykjanesi á Reykjaströnd án þess að klæða kuldann af sér, en sjórinn á þessum slóðum er frekar kaldur. Þegar þær syntu var hitastig sjávar á bilinu 9,5 - 10,5 gráður.
Þær lögðu af stað frá Drangey kl. 8:20 í morgun í 3 stiga hita og þó nokkrum öldum, umkringdar hvölum sem voru að sýna listir sýnar. Fljótlega lægði þó og hlýnaði og gekk sundið mjög vel. Sigrún Þuríður og Harpa Hrund eru ekki ókunnar sjósundi en Sigrún synti yfir Ermarsundið 2015 og báðar hafa þær synt boðsund þar yfir.
Sigrún Þuríður er 5. konan til að synda Drangeyjarsund en sundtími hennar var 3 klst. og 29 mín. og Harpa Hrund er 6. konan til að ljúka sundinu en tími hennar var 4 klst. og 15 mín.
Björgunarsveitirnar á Sauðárkróki og Hofsósi fylgdu þeim yfir.
/Jóhannes Jónsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.