Svekkjandi tap í sólinni á Króknum
Tindastólsmenn spiluðu fyrsta heimaleik sumarsins í 2. deildinni í dag í glaðasólskini og 16 stiga hita, en það voru Njarðvíkingar sem mættu á Krókinn. Leikurinn var ágætlega spilaður, en það voru gestirnir sem voru 1-0 yfir í hálfleik en Stólarnir jöfnuðu snemma í síðari hálfleik og voru sterkari aðilinn. Njarðvíkingar tryggðu sér hins vegar sigurinn með tveimur mörkum á lokamínútunum og komu þar með í veg fyrir að Stólarnir spiluðu tuttugasta leik sinn í röð í deildarkeppni án þess að tapa.
Aðstæður á Sauðárkróksvelli voru fullkomnar í dag. Völlurinn fagurgrænn, hiti og sól og smá gola framan af leik. Það var framherji Tindastóls, Nduka Kejika, sem fékk fyrsta færi leiksins en þrumaði boltanum hátt yfir mark gestanna eftir ágæta sendingu frá Kenneth Hogg. Það voru þó gestirnir sem voru að spila betur í upphafi leiks og þeir gerðu laglegt mark á 10. mínútu þegar þeir náðu fallegu þríhyrningaspili í gegnum miðju og vörn Tindastóls og Andri Fannar Freysson skoraði af öryggi í mark Muhammads. Stólunum gekk illa að búa til færi eftir þetta og ekki bætti úr skák þegar Kejika virtist meiðast illa eftir um 20 mínútna leik. Eftir að hafa stokkið upp í skallabolta ásamt varnarmanni Njarðvíkinga fékk hann slæmt högg á ökklann og varð að kalla til sjúkrabíl. Gestirnir áttu betri færi fram að hléi en í raun gerðist fátt markvert. 0-1 í hálfleik.
Heimamenn komu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og náðu upp þungri pressu að marki Njarðvíkinga. Hún endaði með því að Hólmar Daði Skúlason jafnaði með hörkuskoti sem Hörður markvörður Björgvinsson réði ekki við. Eftir þetta náði lið Tindastóls góðum tökum á leiknum og spilaði á köflum fínan fótbolta. Liðið skapaði sér nokkur góð færi og flest af vinstri kantinum þar sem Benni og Hogg náðu oft vel saman. Mörkin létu þó á sér standa en Benni og Konni voru óheppnir að koma ekki Stólunum yfir. Þegar á leikinn leið reyndu Stólarnir að ná sigurmarkinu en við það riðlaðist skipulagið og Njarðvíkingar fóru að finna hægri kantinn vel með laglegum skiptingum. Þannig komust þeir yfir á 89. mínútu þegar Theodór Guðni Halldórsson fékk boltann utarlega í vítateig Tindastóls og aðeins einn Tindastólsmaður til varnar. Hann lék inn á teiginn og átti gott skot í fjærhornið sem Mohammad átti ekki séns í. Staðan 1-2 og fáar mínútur eftir. Ekki batnaði staðan þegar gestirnir fengu aukaspyrnu skömmu síðar og úr henni skoraði Andri Fannar sitt annað mark. Veggurinn var sennilega ekki nógu vel upp stilltur því það reyndist Andra allt of auðvelt að setja boltann út fyrir vegginn og í nærhornið. Engu að síður frábært skot. Eftir þetta varð ekki aftur snúið fyrir Stólana og dómarinn flautaði til leiksloka án þess að þeir gætu svarað fyrir sig. Lokatölur 1-3.
Lið Tindastóls sýndi ágæta takta í leiknum en nokkrir leikmenn eru nýkomnir til leiks og eiga eftir að slípast saman. Neil Sloves og Fannar Kolbeins voru miðherjaparið í dag og gáfu í raun ekki mörg færi. Kenneth Hogg var einna bestur í liði Tindastóls, sívinnandi og spilaði boltanum vel. Þá átti Benni ágætar rispur í síðari hálfleik en það var skarð fyrir skildi að í lið Tindastóls vantaði Ragnar Þór Gunnarsson að þessu sinni. Það var skellur fyrir Stólana að tapa í dag og liðið átti það ekki skilið. Í 2. deildinni eru gæðin hinsvegar talsvert meiri en í þeirri þriðju og mistökin því oft á tíðum dýrkeyptari.
Næsti leikur Tindastóls er gegn Aftureldingu á Varmárvelli laugardaginn 27. maí kl. 17:00.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.