Stórsigur Stólanna á Stokkseyri
Tindastólsmenn skelltu sér suður í gær og léku við lið heimamanna á Stokkseyri í sjöundu umferð B-riðils 4. deildar. Það er skemmst frá því að segja að Stólarnir buðu upp á markaveislu og sáu heimamenn í liði Stokkseyrar aldrei til sólar í leiknum því Jóhann Daði kom gestunum yfir á fyrstu mínútu og þegar upp var staðið hafði markvörður heimamanna hirt boltann níu sinnum úr netinu. Lokatölur því 0-9.
Reyndar var nokkur bið í mark tvö en blaðra heimamanna sprakk á 34. mínútu því Stólarnir gerðu fjögur mörk á tíu mínútna kafla. Addi Ólafs gerði annað markið, Jónas Aron bætti við þriðja markinu á 39. mínútu, Jóhann Daði gerði annað markið sitt tveimur mínútum síðar og Basi komst loks á lista yfir markaskorara á 44. mínútu. Staðan því 0-5 í hálfleik.
Svo hélt veislan áfram í síðari hálfleik því Eysteinn Bessi gerði sjötta mark Stólanna á 55. mínútu og Benedikt Gröndal það sjöunda á 64. mínútu. Svíinn Óskar Örth skoraði á 73. mínútu og Basi kórónaði síðan sigur gestanna með marki eftir hjólhestaspyrnu.
Úrslitin þýða að lið Tindastóls er á toppi riðilsins að lokinni fyrri umferð með 17 stig. Lið KFK úr Kópavogi getur jafnað stigafjölda Stólanna þegar það mætir SR í kvöld en hæpið er að þeir jafni markatölu Tindastóls því þar munar 17 mörkum. Toppliðin mætast síðan í næstu umferð í Fagralundi í Kópavogi en leikurinn fer fram nk. mánudag.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.