„Stóra markmiðið sem loksins náðist“

Elmar Eysteinsson frá Laufhóli í Skagafirði er nýr Íslandsmeistari í fitness.
Elmar Eysteinsson frá Laufhóli í Skagafirði er nýr Íslandsmeistari í fitness.

Skagfirðingurinn Elmar Eysteinsson gerði sér lítið fyrir og hreppti Íslandsmeistaratitli í Fitness á fimmtudaginn var. Feykir spjallaði við Elmar um mótið, undirbúninginn og feril hans í Fitness.

Hverra manna ertu?

Ég er sonur Eysteins Steingrímssonar frá Laufhóli og Aldísar Axelsdóttur frá Litlu-Brekku. Þau búa núna á Laufhóli en vinna bæði á Hólum, ásamt því að vera með búskap.

Hvenær byrjaðir þú að taka þátt í fitness?

Ég tók þátt á mínu fyrsta móti árið 2012 en þá keppti ég í unglingafitness. Mótið gekk ekkert sérstaklega vel hjá mér en þá kviknaði upp eldur innra með mér og ég vissi nákvæmlega hvað mig langaði til að gera. Það tókst síðan núna næstum fjórum árum síðar.

Hefurðu keppt á mörgum mótum?

Ég er búinn að keppa á fjórum mótum samtals. Aldrei hefur mér fundist ég ná að skila mínu besta fyrr en núna en öll mótin sem ég keppti á hafa hvatt mig áfram til þess að leggja enn harðar að mér svo ég geti náð markmiðum mínum.

Kom sigurinn á óvart?

Fyrir hvert einasta mót sem ég hef keppt á hef ég alltaf stefnt á sigur og spáð mikið í keppinautum mínum. Fyrir þetta mót ákvað ég að leggja alla mínu orku í að hugsa bara um mig og að ég komi eins góður og ég mögulega gæti verið. Ég væri að ljúga ef ég segði að ég hefði ekki stefnt á sigur fyrir þetta mót. Ég virkilega trúði því að ég gæti unnið og það var mitt markmið. Maður veit samt aldrei og sérstaklega þegar maður keppir í gríðarlega sterkum ellefu manna flokki.

Tekurðu þátt í öðrum íþróttum?

Nei það geri ég ekki, fitnessið tekur allan minn tíma og rúmlega það. Ég æfði körfubolta og knattspyrnu þegar ég var yngri með Tindastól en það er orðið langt síðan ég hætti. En maður tekur nú stundum smá sprikl í boltanum eins og Molduxamótið um jólin og Jónsmessu-fótboltamótið á Hofsósi og hef virkilega gaman af því.

Ertu búinn að setja þér ný markmið í framhaldi af sigrinum?

Nei, þetta var stóra markmiðið sem loksins náðist. Næsta vika verður tekin í að skoða og meta framhaldið og möguleikana. Ég hef aðeins verið að skoða mót utan landssteinana en veit ekkert hvort það verði núna fljótlega eða seinna. Sama hvað þá er markmiðið að halda áfram að bæta sig og gera enn betur en núna um helgina, ég er bara rétt að byrja í þessu og hlakka mikið til að setja mér ný markmið.

Eitthvað að lokum?

Þessari íþrótt hefur alltaf fylgt mikið umtal um að þeir sem stundi sportið noti stera og ólögleg efni til þess að ná góðum árangri. Ég get sagt með 100% hreinni samvisku að ég hef aldrei notast við nein ólögleg efni til þess að ná árangri. Svo það sé alveg á hreinu þá er ég ekki að saka einn né neinn um að notast við þessi efni. En þegar ég byrjaði fékk ég oft að heyra frá ýmsum aðilum að ég myndi aldrei ná neinum árangri í þessari íþrótt ef ég ætlaði ekki að nota stera eða lyf til að hjálpa mér og það væri það sem þyrfti. Ástæðan fyrir því að ég er að tala um þetta er sú að ég vil sýna að þetta sé hægt á náttúrlegan og góðan hátt og einnig vil ég vera fyrirmynd fyrir aðra sem hafa áhuga á að keppa og vilja fara sömu leið. Með gríðarlegri vinnu, skipulagi og miklum aga er allt hægt.

Ég vil þakka öllum sem hafa stutt við bakið á mér i gegnum þetta ferli, það er ekki hægt að fara einn í gegnum þetta og maður þarf að eiga góða fjölskyldu og vini að svo þetta gangi. Að lokum vil ég minnast á kærustuna mína hana Anítu Rós Aradóttur sem hefur hjálpað mér alveg gríðarlega mikið og stutt við bakið á mér alveg síðan við fórum að hittast fyrir um þremur árum síðan. Hefði ekki getað þetta án hennar. Hún er sjálf bikarmeistari í módelfitness ásamt því að hafa unnið heildarstigakeppnina í þeim flokki og veit því hvað þarf til þess að ná árangri í þessari íþrótt.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir