Stólastúlkur með 5-0 sigur á Einherja
Stelpurnar í meistaraflokki Tindastóls nældu sér í þrjú stig í gær með 5-0 sigri á Einherja frá Vopnafirði. Murielle Tiernan skoraði þrennu og Krista Sól Nielsen skoraði tvö. Með sigrinum tryggðu Stólarnir sér þriðja sæti deildarinnar með 9 stig meðan Fjarðab/Höttur/Leiknir gerði jafntefli og sitja því sæti neðar með 7 stig.
Á Facebook-síðu Tindastóls segir að leikur liðsins hafi í heild verið mjög góður. „Það var einungis fyrstu 20 mínútur leiksins sem gestirnir ógnuðu marki að einhverju leyti. Eftir þann kafla tóku Tindastólsstelpur yfir leikinn og hefðu hæglega getað skorað mun fleiri mörk. Við hins vegar sættum okkur alveg við 5 stykki ;) Vel gert stelpur!,“ skrifar Jón Stefán Jónsson, þjálfari stelpnanna.
Murielle Tiernan setti fyrsta mark sitt og Stólanna þegar 35 mínútur voru iðnar af leiknum og hélst sú staða í hálfleik. Í upphafi seinni hálfleiks bætti hún öðru marki við og skömmu síðar eða á 53. mínútu kom Krista Sól Nielsen Stólunum í 3-0. Það var svo á 77. mínútu sem Murielle Tiernan fullkomnaði þrennu sína og fjórum mínútum síðar mætti Krista Sól á skotskónum og gulltryggði Stólum sigur yfir lánlausum Einherjastúlkum.
Næsti leikur stelpnanna er nk. laugardag 30. 6. Á Sauðárkróksvelli kl. 16:00 og tilvalið að skella sér á völlinn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.