Stólastúlkur áfram í 16 liða úrslitin í Mjólkurbikarnum
Tindastóll og ÍR mættust á Króknum í dag í 2. umferð Mjólkurbikars kvenna. Lið ÍR spilar í 2. deildinni en þar er keppni ekki enn hafin og það mátti því fyrirfram reikna með sigri Stólastúlkna þó að sjálfsögðu enginn leikur sé unnin fyrirfram. Það kom hins vegar á daginn að heimaliðið var töluvert sterkara en gekk illa að skapa sér dauðafæri. Mörkin létu þó sjá sig í síðari hálfleik og á endanum fór það svo að lið Tindastóls vann sanngjarnan 2-0 sigur og er því komið í 16 liða úrslit Mjólkurbikarsins.
Það vantaði Murr í lið Tindastóls en hún hefur að sjálfsögðu verið fókuspunkturinn í sóknarleik liðsins síðustu árin. Það tók smá tíma fyrir lið Tindastóls að finna aðrar leiðir til að sækja í en það small á endanum. Fátt markvert gerðist á upphafskaflanum en síðan má segja að Stólastúlkur hafi nánast tjaldað á vallarhelminigi ÍR og uppskar vel á annan tug hornspyrna í fyrri hálfleik. Það gekk illa að nýta þær en þó skall hurð nærri hælum í nokkur skipti. Lið ÍR náði einni góðri skyndisókn en Amber varði í horn en hún hefur sennilega aldrei átt jafn náðugan dag í markinu – virtist nánast leiðast á köflum.
Markalaust var í hálfleik og það varð fljótt ljóst í síðari hálfleik að Donni vildi að lið Tindastóls hreyfði boltann meira innan liðsins. Dugnaðurinn í Aldísi Maríu skilaði fyrsta markinu á 48. mínútu en hún náði að elta boltann inn á teig ÍR, komast framhjá markverðinum og setja boltann í markið úr mjög þröngu færi. Vel gert og Aldís María virðist í hörkuformi þessa dagana; sterk, fljót og áræðin. Lið ÍR komst lítt áleiðis gegn vörn Tindastóls eftir markið og á 78. mínútu gerði Hugrún út um leikinn eftir frábæra sókn. Eftir að boltinn hafði gengið heillengi innan liðsins opnaði Aldís vörn ÍR með laglegum snúngin, síðan kom góð sending inn á markteig þar sem Hugrún mætti og afgreiddi boltann af öryggi í markið.
Það eru jákvæð merki á leik Tindastóls nú í upphafi tímabils og gaman að sjá stelpurnar vera tilbúnar að halda betur í boltann. Frammi voru Aldís og Hugrún meira en handfylli fyrir vörn ÍR, sívinnandi og tilbúnar að taka leikmenn á með hraða og áræðni. Hannah Cade spilaði vel á miðjunni og aðrir leikmenn skiluðu sínu dagsverki af öryggi. Enn hélt vörnin hreinu og það er ágætis vani.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.