Stólastúlkur á toppnum eftir sigur gegn Völsungi

Bryndís Rut og Stólastúlkur fagna sigurmarkinu gegn Völsungi. MYND: ÓAB
Bryndís Rut og Stólastúlkur fagna sigurmarkinu gegn Völsungi. MYND: ÓAB

Það var boðið upp á hörkuleik á gervigrasinu á Króknum í gærkvöldi þegar lið Tindastóls tók á móti liði Völsungs frá Húsavík í 2. deild kvenna. Húsvíkingar hafa oft verið liði Tindastóls til vandræða og með sigri í gær hefðu þær húsvísku náð að komast upp að hlið Tindastóls og Augnabliks á toppi deildarinnar. Þeim varð ekki kápan úr því klæðinu því Stólastúlkurnar voru sterkari og náðu að skora sigurmarkið í blálok leiksins og var það fyllilega verðskuldað.

Lið Tindastóls hóf leikinn af miklum krafti en markið sem virtist liggja í loftinu lét bíða eftir sér. Stólarnir fengu nokkur ágæt færi til að komast yfir en vörn gestanna var ákaflega þrjósk og þær hentu sér ítrekað fyrir efnileg skot heimastúlkna. Eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn náði lið Völsungs að komast aðeins inn í leikinn og hægja á sóknarleik Tindastóls.

Vigdís Edda var lífleg á hægri kantinum og neyddust gestirnir til að brjóta ítrekað á henni. Særún Anna Brynjarsdóttir fékk loks gult spjald fyrir tuddabrot á Vigdísi skömmu fyrir hlé og í upphafi síðari hálfleiks var ljóst að Vigdís gæti ekki klárað leikinn.

Leikurinn opnaðist enn meira í síðari hálfleiknum og eftir því sem á leið fengu Stólastúlkur opnari og betri færi. Lið Völsungs fékk fá eða nánast engin færi því Ólína Sif og Bryndís Rut voru mjög agaðar og ákveðnar í hjarta varnarinnar. Nú komust líka Murielle Tiernan og ekki síst Krista Sól betur inn í leikinn og þær gerðu varnarmönnum gestanna erfitt fyrir.

Það vantaði hins vegar yfirvegun fyrir framan markið því ýmist var dúndrað beint á Nadine Stonjek í marki Völsungs eða vel yfir markið. Laufey Harpa átti þó nokkur ágæt skot en það var ekki fyrr en á fyrstu mínútu uppbótartíma sem sigurmarkið dúkkaði upp. Þá fékk Tindastóll aukaspyrnu við miðlínu. Ólína Sif sendi góðan bolta inn á vítateig þar sem varnarmönnum Völsungs mistókst að hreinsa og boltinn féll vel fyrir Bryndísi Rut fyrirliða sem náði hörkuskoti sem markmaður gestanna átti ekki séns að verja.

Stelpurnar fögnuðu markinu innilega og áttu ekki í vandræðum með að verjast bitlausum sóknum Völsungsstúlknar síðustu mínúturnar. Að leik loknum er lið Tindastóls á toppi 2. deildar kvenna með 21 stig eftir að hafa unnið sjö leiki en tapað tveimur en næsti leikur er gegn Gróttu á Seltjarnarnesinu 27. júlí.

Sem fyrr segir var lið Tindastóls mun sterkara en gestirnir í gær og kannski helst hægt að gagnrýna liðið fyrir að halda ekki boltanum betur og taka sér betri tíma í að byggja upp sóknirnar. Vinnusemin og dugnaðurinn var til mikillar fyrirmyndar og augljóst frá fyrstu mínútu að stelpurnar voru staðráðnar í að vinna leikinn. Það er gaman að fylgjast með stelpunum því það eru augljós framfaraskref tekin á hverju sumri. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir