Stólarnir rifu tvö stig með sér úr Hellinum

Leiðin að körfunni er ekki alltaf auðfarin. Hér er Taiwo Badmus í baráttunni við nokkra KR-inga á dögunum. MYND: HJALTI ÁRNA
Leiðin að körfunni er ekki alltaf auðfarin. Hér er Taiwo Badmus í baráttunni við nokkra KR-inga á dögunum. MYND: HJALTI ÁRNA

Lið Tindastóls vann fjórða leik sinn í röð í kvöld og þriðja leikinn á einni viku þegar liðið sótti hellisbúana í Breiðholtinu heim. Eins og vanalega þegar lið ÍR heldu partý þá var boðið upp á baráttu og spennu. Tindastólsmenn voru án Javon Bess en náðu að negla saman þokkalegasta varnarvegg og í sókninni steig Taiwo upp og sýndi listir sínar. Lokatölur voru 71-75 og Tindastólsmenn öruggir með sæti í úrslitakeppninni.

Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta en Stólarnir þó yfirleitt með örlitla forystu. Staðan var 17-19 að honum loknum. Fimm stig frá Taiwo og tvö víti frá Sigga komu Stólunum átta stigum yfir snemma í öðrum leikhluta, 22-30, en mestur varð munurinn tólf stig eftir þrist frá Arnari þegar tvær og hálf mínúta var til leikhlés, 25-37. Átta stigum munaði í hálfleik, staðan 31-39.

Fyrstu fimm stig síðari hálfleiks voru heimamanna og leikurinn í raun í járnum allt til loka. Þristur frá Triston Simpson kom liði ÍR yfir þegar þriðji leikhluti var ríflega hálfnaður og næstu mínútur skiptust liðin á um að hafa forystuna. Allt var jafnt, 55-55, eftir að Pétur setti niður tvö víti undir lok þriðja leikhluta en það voru heimamenn sem byrjuðu lokafjórðunginn betur, komust fjórum stigum yfir, 61-57, en þá tók Taiwo upp á því að galdra fram nokkrar körfur og kom Stólunum yfir á ný. Staðan var 65-68 þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum og tókst heimamönnum aldrei að komast yfir það sem eftir lifði. Igor Maric jafnaði fyrir ÍR þegar tæpar tvær mínútur voru eftir, 71-71, en Taiwo og Pétur skelltu í eitt hollý-hú fyrir forystunni. Í næstu sókn ÍR rændi Pétur boltanum snyrtilega af Triston Simpson og Arnar tryggði síðan sigurinn með því að pakka tveimur vítaskotum í körfuna.

Sannarlega sætur sigur Tindastóls og er liðið nú í sjötta sæti Subway-deildarinnar og á eftir að spila þrjá leiki. Næsti leikur er gegn Keflvíkingum í Síkinu 24. mars, síðan heimsækja Stólarnir flengjarana í Þorlákshöfn og síðasta dag marsmánaðar mætir lið Þórs frá Akureyri í Síkið.

Taiwo Badmus gerði 27 stig í leiknum og hirti átta fráköst, Arnar skilaði 19 stigum, Zoran Vrkic 12 og Siggi var með níu stig og tíu fráköst. Þegar tölfræði leiksins er skoðuð kemur í ljós að ÍR hafði naumlega betur á flestum sviðum – nema þegar kemur að vítaskotum. Heimamenn fengu aðeins níu víti í leiknum (7/9) á meðan Tindastólsmenn fengu 18 (16/18). Þetta ætti að gefa til kynna að Stólarnir hafi spilað vörnina vel.

Tölfræði af vef KKÍ >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir