Stólarnir buðu upp á hnallþórur í Síkinu | UPPFÆRT
Tindastóll og Valur mættust í öðrum leiknum í einvígi liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í Síkinu í kvöld. Að venju var stemningin í ruglinu og Tindastólsmenn voru vel tengdir, náðu strax yfirhöndinni í leiknum og litu aldrei til baka. Strákarnir okkar leiddu með 19 stigum í hálfleik, 53-34, og náðu mest 24 stiga forystu í þriðja leikhluta. Valsmenn náðu muninum niður í tíu stig en Stólarnir náðu vopnum sínum á ný og með Pétur í algjöru eðalformi þá tóku þeir sigurinn. Lokatölur 91-75.
Það var talið að um 1.200 manns hefðu mætt í Síkið í kvöld og jú, fólk lét vel í sér heyra og boppaði og skoppaði á pöllunum. Stólarnir fundu fluggírinn fljótt eftir að dýralæknirinn geðþekki skellti í þrist eftir mínútu. Eftir þrjár og hálfa mínútu var allt byrjunarlið Stólanna; Axel, Pétur, Badmus, Arnar og Bess, búnir að skora og sjálfstraustið í liðunu svoleiðis að allt ætlaði upp úr að sjóða í Síkinu. Á meðan virkuðu Valsmenn ansi vonlausir og alls ekki léttir í lund. Stólarnir voru komnir með tíu stiga forystu eftir fimm mínútna leik og þegar Siggi Þorsteins mætti til leiks varð öllum ljóst að Pétur var á eldi en kappinn þræddi hvern boltann af öðrum í hendurnar á Vestfjarðavíkingnum sem skilaði sínu verki fagmannlega. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 24-15 og áfram hélt skemmtunin í öðrum leikhluta. Arnar, sem lenti reyndar fljótlega í smá villubrasi, skellti í þrist um miðjan leikhlutann, staðan 37-23, en þegar Siggi skutlaði í spariþrist þá ætlaði þakið af Síkinu. Hannes og Viðar komu til leiks síðustu mínútur fyrri hálfleiks, fullir af orku og fítonskrafti, og Nesi átti síðustu orðin fyrir hlé, smellti niður þristi og einni íleggju eftir að Pétur hafði stolið boltanum við miðlínu. Skyndilega var munurinn orðinn 19 stig og staðan í hálfleik 53-34.
Finnur Freyr, þjálfari Vals, hefur svo sem lent í djúpri holu áður í Síkinu og þekkir öll trikkin í bókinni. Hér áður gat hann að vísu stólað á Jón Arnór, sem gat dottið í leiðindastuð í Síkinu, en gátu Finnur snúið leiknum við ásamt sínum liðsmönnum? Kári Jóns var seigur í kvöld eins og oft áður og hann byrjaði síðari hálfleik á að setja niður þrist. Stólarnir hins vegar svöruðu öllum aðgerðum Valsmanna að bragði og rúmlega það. Hannes kom Stólunum í 69-45 þegar þrjár og hálf mínúta var eftir af þriðja leikhluta en í kjölfarið kom fimm mínútna kafli þar sem drapst á sóknarleik Stólanna og Valsmenn gengu á lagið. Þeir minnkuðu muninn í 16 stig, 69-53, fyrir lok leikhlutans og hófu síðan fjórða leikhluta á því að setja niður tvö þrista og minnka muninn í tíu stig. Hljóp nú spenna í leikinn því sóknarleikur heimamanna var enn ekki kominn í gang. Vörnin tók við sér á ný og það er alltaf góðs viti. Finnur þjálfari fékk dæmt á sig tæknivíti og Bess gerði loks stig fyrir Stóla og Badmus bætti við öðru víti stuttu síðar. Þetta reyndist vendipunktur því aldan sem Valsmenn brunuðu á brotnaði nú undan þeim. Stólarnir héldu áfram að skora af vítalínunni en í stöðunni 73-62 setti Pétur niður þrist og Síkið dró andann á ný. Stólarnir tóku leikinn yfir og sigldu heim frábærum sigri.
Það var sannkölluð liðsframmistaða hjá Stólunum í kvöld. Það er enginn eigingjarn í þessu liði, menn spila til sigurs og skilja allt eftir á vellinum – rétt eins og stuðningsmenn liðsins í Síkinu. Pétur átti leik sem má nota sem kennsluefni í körfubolta; níu stig, sex fráköst, ellefu stoðsendingar og tveir stolnir og leikstjórnunin eiginlega bara fullkomin. Það var hins vegar Taiwo Badmus sem var stigahæstur með 22 stig og átta fráköst. Siggi skilaði 15 stigum, Bess 12, Arnar 11, Vrkic 9, Hannes 8 og Axel 5. Þá er rétt að gefa hrós á Baldur þjálfara sem hefur hingað til gert frábæra hluti með lið Tindastóls í úrslitakeppninni og verið klókur.
Í liði Vals var Calloway með 16 stig, Lawson 15, Kári 14 og Kristófer Acox 9. Kristófer var besti maður vallarins í Valsheimilinu á dögunum en að þessu sinni náðu Stólarnir að gera kappanum erfitt fyrir og munar um minna því það er stemning í honum.
Næst mætast liðin á fimmtudagskvöldið í Valsheimilinu og hvernig svo sem sá leikur fer þá er ljóst að liðin mætast í Síkinu í fjórða leiknum nk. sunnudagskvöld. Getur stemningin orðið eitthvað meiri en hún hefur þegar orðið? Sjáum til.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.