Stólarnir á toppnum yfir hátíðirnar - Viðtal við Helga Frey
Tindastóll gerði góða ferð til Keflavíkur í gær þegar fyrri leikir síðustu umferðar Domino´s deildar voru spilaðir. Keflavík, sem situr í 3. sæti, hefði með sigri komist á toppinn með Njarðvík sem nú deilir toppnum með Stólunum með 20 stig en okkar menn eru með betra stigahlutfall og tróna því aðeins hærra á stigatöflunni yfir hátíðirnar.
„Leikurinn byrjaði af krafti, bæði lið skoruðu mikið og var jafnt á með liðunum fram í miðjan 1. leikhluta þegar Tindastóll komst framúr KEF með öguðum varnarleik, sem er búið að vera aðalsmerki liðsins í vetur, og góðum skotum í sókninni. Annar leikhluti byrjaði eins og sá fyrsti endaði og Tindastóll komst á tímabili 20 stigum yfir en þrem mínútum fyrir hálfleik færðist ákveðin værukærð yfir leik Stólamanna sem misstu boltann tvisvar klaufalega frá sér sem gáfu auðveld fjögur stig og svo skoraði KEF stemnings þrist á lokasekúndu skotklukku til að koma sér í betri stöðu fyrir hálfleik,“ segir Helgi Freyr Margeirsson, aðstoðarþjálfari Tindastóls. Í hálfleik munaði átta stigum á liðunum en þriðji leikhluti hófst á því að KEF náði að nálgast enn meira og kom muninum niður í þrjú stig en lengra komst KEF ekki því Tindastóll lokaði vörninni og fór að spila betur í sókninni og uppskáru að lokum öruggan 14 stiga sigur á KEF.
Keflvíkingar söxuðu á gott forskot. Heldurðu að þeir hafi einhvern tímann eygt von um að ná yfirhöndinni?
„Það var aldrei upplifun mín eða leikmanna að þessi leikur væri í einhverri hættu, það var okkar klaufaskapur sem kom þeim aftur inn í leikinn en þegar við urðum aftur agaðir og framkvæmdum það sem við lögðum upp með fyrir leik að þá dró í sundur með liðunum aftur.“
Nú er Dino farinn að drita þristum niður af krafti, það hlýtur að vera styrkur að hafa svona marga skotmenn?
„Það er mjög mikilvægt fyrir öll lið að geta dreift álaginu bæði varnarlega og sóknarlega, það gerir líka allt erfiðara fyrir önnur lið því það er ekki hægt að taka einhvern einn leikmann úr umferð og stoppa þannig flæðið, því þá losnar bara meira um einhvern annan. Þetta eru forréttindi að vera í svona öflugu liði með svona mikla breidd og liðsheild.“
Nú er Alawoya að fara eftir að hafa leyst King af. Var ekki liðið að virka vel með hann innanborðs?
„PJ er búinn að standa sig ótrúlega vel, þvílíkur liðsmaður og frábær í klefanum. Þetta er öflugur varnarmaður sem skilur leikinn vel og er alltaf rétt staðsettur sem auðveldar leikinn. Liðið er taplaust með hann innanborðs en þetta var alltaf planið að hann kæmi bara tímabundið. Hver veit nema annað lið taki hann til sín eftir áramótin.“
Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri?
„Við fengum frábæran stuðning frá okkar fólki á leiknum í gær, áttum stúkuna eins og svo oft áður. Fólk sem var komið alla leið frá Króknum og svo auðvitað brottfluttir Skagfirðingar einnig. Ég vil koma þakklæti til þeirra sem styðja við bakið á okkur í þessari baráttu, stuðningsmenn, stuðningsaðilar og stjórnarfólk. Tindastóll væri ekki á toppi Dominos deildarinnar ef ekki væri fyrir ykkar óeigingjarna starf og stuðning. Gleðileg jól.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.