Sterkur sigur Stólastúlkna á Víkingum

Hugrún var með sigurmarkið í kvöld. MYND: ÓAB
Hugrún var með sigurmarkið í kvöld. MYND: ÓAB

Lið Tindastóls í Lengjudeild kvenna hélt suður í höfuðborgina í dag en þar beið þeirra sterkt lið Víkingsstúlkna sem spáð var einu af tveimur efstu sætum deildarinnar fyrir tímabilið. Úr varð hörkuleikur þar sem bæði lið sóttu til sigurs og það reyndust Stólastúlkur sem kláruðu dæmið, sýndu góðan karakter eftir að hafa lent undir snemma leiks og fögnuðu öflugum 1-2 sigri.

Bæði liðin voru með níu stig eftir fjórar umferðir og sigur því dýrmætur báðum liðum í baráttunni um toppsætin í Lengjudeildinni þar sem lið FH og HK hafa farið best af stað. Amber hóf leikinn með góðri vörslu í marki Tindastóls en á 12. mínútu komust heimastúlkur yfir. Amber hafði þá varið frá Christabel en boltinn datt fyrir Huldu Ösp sem kláraði málið. Liðin skiptust á um að eiga færi en markverðir beggja liða voru vel vakandi. Stólastúlkur vildu fá víti á 39. mínútu eftir góða rispu frá Aldísi en ekkert dæmt. Hannah Cade vann síðan aukaspyrnu á 41. mínútu og sendi fastan bolta inn að marki Víkings og þar fór boltinn af Dagbjörtu fyrirliða Víkings og í markið. Allt orðið jafnt en bæði lið fengu færi til að ná forystunni á ný fyrir hlé.

Það tók lið Tindastóls ekki mínútu að ná forystunni í síðari hálfleik. Enn var það Hannah Cade sem lagði grunninn, sendi boltann inn fyrir vörn Víkinga á Murr sem var í dauðafæri, Andrea varði skot hennar en boltinn barst á Hugrúnu sem fylgdi vel á eftir og skoraði. Næstu mínútur voru Stólastúlkur nálægt því að bæta við marki en þegar á leið opnaðist leikurinn frekar þegar heimastúlkur reyndu að sækja jöfnunarmarkið. Vörn Tindastóls og Amber voru ekkert á þeim buxunum að hleypa inn öðru marki og það voru því Stólastúlkur sem fóru með sæt þrjú stig með sér norður.

Feykir spurði Donna þjálfara hvað honum fannst um frammistöðu sinna stúlkna og hvort þetta hafi verið besta frammistaða liðsins í sumar. „Frammistaðan var heilt yfir mjög góð,“ sagði Donni. „Víkingar eru virkilega sterkt lið og hafa gert mjög vel svo það var klárlega mjög stórt fyrir okkur að vinna þær á þeirra velli. Þetta var mjög sterk frammistaða en mér finnst við eiga ennþá meira inni og viljum verða ennþá betri i því sem við erum að vinna í.“

Næsti leikur Tindastóls er hér heima 11. júní en þá kemur sameinað lið Austfirðinga, Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir, á græna teppið en það hefur byrjað mótið með ágætum, er með sjö stig eftir fjóra leiki og aðeins tapað fyrir toppliði FH.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir