Sterkt lið Fylkis náði í stig gegn Stólastúlkum
Lið Tindastóls og Fylkis mættust í Lengjudeild kvenna á Sauðárkróksvelli í gærkvöldi og úr varð spennuleikur eins og jafnan hjá Stólastúlkum í sumar. Liðið kom örlítið laskað til leiks en Aldís María og Hrafnhildur gátu ekki hafið leik. Á meðan að lið heimastúlkna er í toppbaráttunni hafa Árbæingar verið í tómu ströggli í sumar en hafa nú styrkt lið sitt og verið að næla í stig í síðustu umferðum, m.a. jafntefli gegn HK. Það fór svo í gær að liðin skiptust á jafnan hlut, lokatölur 1-1.
Stólastúlkum gekk illa að byggja upp spil fram á við í fyrri hálfleik og lið Fylkis hleypti þeim varla inn á sinn vallarhelming. Hinum megin þurfti Amber nokkrum sinnum að grípa inn í en fátt var þó um fín færi. Það var því rækilega gegn gangi leiksins þegar Tindastóll náði forystunni á 43. mínútu en þá skoraði Murr af harðfylgi, nýtti styrk sinn og hraða til að komast inn fyrir vörn Fylkis og renndi boltanum framhjá Tinnu Brá í marki Fylkis. Staðan 1-0 í hálfleik.
Heimastúlkur hóf leik af krafti í upphafi síðari hálfleiks og ógnuðu marki gestanna. Inn fór boltinn ekki og síðan varð ljóst að Fylkiskonur höfðu fundið leið að marki Tindastóls og sýndu líka meiri grimmd. Þær voru nálægt því að jafna úr aukaspyrnu en í næstu sókn komust þær upp hægri kant og sendu góðan bolta inn á teiginn þar sem Hulda Hrund Arnarsdóttir komst í boltann og skóflaði honum í markið framhjá Amber. Markið kom á 59. mínútu og gestirnir höfðu yfirhöndina þangað til Donni hætti á að skipta Aldísi Maríu inn á en þá færðist loks meiri ógn í sóknarleik Tindastóls og þær fóru að teygja betur á vörn gestanna. Sigurmark lá í loftinu og það virtist hafa komið um það bil sem venjulegur leiktími rann út. Þá kom Murr boltanum í netið við mikinn fögnuð en dómarinn, sem vann engar vinsældakosningar í gærkvöldi, virtist dæma brot á markvörð Fylkis og flautaði markið af. Áfram hélt lið Tindastóls að sækja en vörn gestanna hélt og jafntefli því staðreynd.
Jafntefli sem var augljóslega ekki það sem lið Tindastóls þurfti og vildi í toppbaráttu Lengjudeildarinnar og leikmenn svekktir í leikslok. Stólastúlkur áttu kannski ekki meira skilið en eitt stig miðað við gang leiksins en liðið hefur sótt sigra eftir erfiðari leiki en þennan enda hjartað, seiglan og vörnin verið aðalsmerki liðsins í sumar. Verið er að vinna að því að styrkja liðið fyrir síðustu umferðirnar, enda hópurinn lítill, og í gær var tilkynnt um komu ástralskrar stúlku og hver veit nema fleiri fiskar bætist í tjörnina hans Donna áður en glugginn lokast.
Eftir leiki gærkvöldsins er lið FH efst með 26 stig, HK skaust upp fyrir lið Tindastóls eftir sigur á Fjölni og er með 25 stig en Stólastúlkur eru með 24 stig. Víkingar og lið Austfjarða eru ekki langt undan og því getur allt gerst í æsispennandi Lengjudeild. Nú á þriðjudaginn er síðan einn stærsti leikur sumarsins fyrir lið Tindastóls en þá mæta stelpurnar liði HK í Kórnum í Kópavogi þar sem Guðni Þór heldur um taumana. Nú þurfa stelpurnar að setja undir sig hausinn og ná í úrslit. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.