Stelpurnar féllu um deild
Stólastelpur fengu Sindra frá Höfn í Hornafirði í heimsókn sl. laugardag í 1. deildinni í fótbolta og dugði þeim ekkert annað en sigur og hagstæð úrslit annarra leikja til að halda sér uppi. Ekki voru happadísir með Stólunum sem töpuðu leiknum 2-4.
Þrátt fyrir tapið áttu Stólarnir nokkur góð færi, stangarskot og hálffæri í leiknum sem hæglega hefðu getað endað sem mörk ef lukkan hefði verið með þeim. Úrslitin segja ekki endilega til um getu liðanna þar sem Stólarnir voru ekki síðri en þær í Sindra. Það sem gerði út um leikinn var varnarleikur heimamanna sem stóðst ekki skyndiáhlaup gestanna sem uppskáru eftir því. Það má líka velta því fyrir sér hvort þörf sé á miðlungsgóðum útlendingum sem halda okkar stelpum á bekknum sem ekki eru síðri, jafnvel betri.
Jenny Bitzer kom gestunum yfir á 22. mínútu en Madison Cannon jafnaði leikinn fimm mínútum síðar. Rétt áður en dómarinn flautaði til hálfleiks skoraði Jenny Bitzer sitt annað mark og kom gestunum yfir á ný.
Hrafnhildur Björnsdóttir sá til þess að Stólarnir jöfnuðu leikinn á 57. mínútu en Phoenetia Browne og Chestley Strother sáu svo um að jarða drauma Stólanna um veru sína í 1. deild að ári með sitthvoru markinu.
Þegar tveir leikir eru eftir í deildinni hjá Tindastól situr liðið á botninum með 8 stig eftir tvo sigra og tvö jafntefli og gæti markmið liðsins nú verið að koma sér upp fyrir Víking Ólafsvík sem er með 11 stig og treysta á hagstæð úrslit.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.