Stefnir í verulega skrautlega lokaumferð í 2. deildinni

Það verður barist til þrautar í 2. deildinni á laugardaginn. MYND: ÓAB
Það verður barist til þrautar í 2. deildinni á laugardaginn. MYND: ÓAB

Í gær sagði Feykir frá sigri Tindastóls á liði Hugins Seyðisfirði og útskýrði fyrir lesendum hver staða liðsins væri fyrir lokaumferðina sem fram á að fara næstkomandi laugardag. Andstæðingar Tindastóls í síðustu umferðinni er lið Völsungs frá Húsavík sem átti ekki lengur séns á sæti í Inkasso-deildinni að ári eftir úrslit leikja nú um helgina. Það hefur hins vegar breyst eftir úrskurð áfrýjunardómstóls KSÍ í gær sem úrskurðaði að spila skildi leik Hugins og Völsungs aftur.

 Þannig var mál með vexti að Huginn fékk Völsung í heimsókn þann 17. ágúst. Dómari gerði mistök í leiknum þegar hann taldi sig vera að sýna leikmanni Völsungs sitt annað gula spjald á 91. mínútu í stöðunni 1-1. Sýndi hann því leikmanninum, sem hafði í raun ekki fengið annað spjald fyrr í leiknum, rauða spjaldið og þrátt fyrir mótmæli og ábendingar leikmanna og starfsmanna leiksins var dómarinn harður á sínu. Í uppbótartíma gerði lið Hugins síðan sigurmarkið í leiknum. Í framhaldinu kærði Völsungur framkvæmd leiksins. 

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ kvað upp úrskurð í málinu 4. september og vísaði kröfu Völsungs frá. Húsvíkingar gáfust þó ekki upp og áfrýjuðu úrskurðinum og komst áfrjýjunardómstóll KSÍ að þeirri niðurstöðu í gær að leikurinn skuli endurtekinn og skuli fara fram að nýju á Seyðisfjarðarvelli.

Leikurinn verður spilaður á ný nú á miðvikudaginn á Seyðisfjarðarvelli. Þegar leikurinn fór fram í ágúst var lið Seyðisfjarðar enn að berjast fyrir sæti sínu í deildinni en nú er liðið fallið og ekkert undir hjá leikmönnum liðsins annað en heiðurinn.

Ef lið Völsungs vinnur leikinn verða þeir komnir með 40 stig og eiga þá möguleika á að enda í einu af tveimur efstu sætunum og kæmust þá upp um deild. Afturelding og Grótta eru bæði með 42 stig fyrir lokaumferðina og Vestri frá Ísafirði er með 41 stig. Leikurinn gegn Tindastóli, sem berst fyrir sæti sínu í 2. deild, gæti því orðið risastór fyrir Húsvíkinga líka.

Eftir þessa niðurstöðu áfrýjunarnefndar KSÍ birtist síðan yfirlýsing frá Seyðfirðingum sem hafna niðurstöðunni og líkt og Völsungur hafa þeir einnig ýmislegt til síns máls. Sjá tilkynningu frá Huginn hér >

Og til að auka enn á dramatíkina í kringum síðustu umferðina þá stefnir í vonskuveður í vikunni – í raun hið leiðinlegasta vetrarveður – með tilheyrandi éljagangi og ófærð og veðurspár fyrir helgina lítt spennandi. Eða eins og snillingarnir segja: Þetta verður eitthvað!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir