Stefnir í hörkuleik í Síkinu í kvöld – Tindastóll KR
Það má búast við hörkuleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld er erkifjendurnir í Domino´s deildinni, Tindastóll og KR eigast við. Leikurinn er gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið sem keppast um að komast á toppinn í deildinni. Eins og staðan er nú sitja Haukar í efsta sætinu með 32 stig en ÍR í því öðru með 28 stig, jafnmörg og Tindastóll sem situr í því þriðja með verri stöðu í innbyrðis viðureignum við Haukana. Þriðja sætið verma svo KR-ingar sem gætu jafnað Stólana að stigum með sigri í kvöld.
Þrír leikir fóru fram í gær, þeir fyrstu eftir landsleikjahlé. Grindavík lagði ÍR 95:89, Keflavík hafði betur í Suðurnesjaslagnum gegn Njarðvík 87:83 og Haukar styrktu stöðu sína á toppnum með sigri á Stjörnunni 80:73.
Eins og áður er sagt er leikurinn í kvöld mikilvægur fyrir Stólana í baráttunni um deildarmeistaratitilinn en einungis þrír leikir eru eftir í deildinni. Það er leikurinn í kvöld gegn KR, mánudaginn 5. mars útileikur gegn Njarðvík og svo heimaleikur fimmtudaginn 8. mars gegn Stjörnunni. 8-liða úrslit fara svo fram 15. - 29. mars, 4-liða úrslit 4.-17. apríl og úrslitaleikirnir 20.-30. apríl.
Leikur Tindastóls og KR hefst klukkan 20.00 í kvöld þar sem um sjónvarpsleik er að ræða á Stöð2 sport og hefst útsending klukkan 19:45.
Á Fésbókarsíðu körfuknattleiksdeildar Tindastóls segir að hamborgararnir verði á sínum stað og algjör skyldumæting sé á leikinn. Heimildir Feykis herma að allir leikmenn séu heilir og meira en til í slaginn, þar með talinn Sigtryggur Arnar sem hefur verið meiddur í nokkurn tíma.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.