Sögulegur leikur framundan á Sauðárkróksvelli
„Leikurinn leggst mjög vel í okkur,“ sagði Guðni Þór Einarsson, annar þjálfara kvennaliðs Tindastóls, í samtali við Feyki í morgun. „Við eigum von á erfiðum leik við spútniklið deildarinnar frá því í fyrra. Lið Þróttar er vel skipulagt og hefur góða leikmenn í sínum röðum. Þessum leik höfum við beðið með eftirvæntingu í nokkra mánuði og við erum tilbúin og stemmningin er virkilega góð í hópnum, einbeiting í bland við spennu.
Þetta er að sjálfsögðu í fyrsta sinn sem meistaraflokkslið Tindastóls leikur í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu og því sögulegur. Sem fyrr segir er mótherjinn lið Þróttar Reykjavík sem spilar fínan fótbolta og því mikilvægt að Stólastúlkur verði í stuði frá fyrstu mínútu en leikurinn hefst kl. 18:00.
Eru allir leikmenn liðsins klárir í slaginn í kvöld? „Hrafnhildur og Eyvör eru að glíma við langvarandi meiðsli en fyrir utan þær þá eru allir leikmenn heilir.“
„Við finnum vel fyrir stuðningnum frá ykkur kæru stuðningsmenn og það er marg sannað að stuðningurinn skilar sér vel inn á völlinn. Leikurinn í dag er stóra stundin okkar allra þegar við spilum fyrsta leik Tindastóls í efstu deild. Við höfum mikla trú á að við getum fest okkur í sessi í deildinni og ég hvet ykkur til að vera dugleg mæta á völlinn í sumar og taka þátt í ævintýrinu með okkur. Ykkar stuðningur skiptir öllu máli. Áfram Tindastóll!“ segir Guðni að lokum.
Stuðningsmenn eru minntir á almennar sóttvarnarreglur á vellinum í kvöld. Svo er nauðsynlegt að klæða sig vel því spáð er hita rétt yfir frostmarki og norðangolu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.