Skín og skúrir í bikarveislu í Síkinu
Það var sannkölluð bikarveisla í Síkinu í dag með tilheyrandi vöfflugleði og sjóðheitu hamborgarapartíi. Þrír leikir fóru fram; fyrst varð 10. flokkur drengja að láta í minni pokann gegn sprækum KR-ingum, meistaraflokkur kvenna átti ekki séns í úrvalsdeildarlið Blika en meistaraflokkur karla náði í sigur gegn liði Fjölnis sem þvældist fyrir toppliði Tindastóls lengi leiks.
Lið KR sigaði 10. flokk drengja hjá Tindastóli með 68 stigum gegn 46 og slógu Stólana því úr leik.
Geysisbikar kvenna: 16 liða úrslit
Tindastóll - Breiðablik 64-107
Því næst var komið að dömunum og var vitað að við ramman reip yrði að draga því lið Breiðabliks er í Dominos-deild kvenna og þó þeim hafi ekki gengið vel þá hafa Blikar verið að styrkja lið sitt að undanförnu. Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar og þegar sex og hálf mínúta var liðin minnkaði Eva Rún muninn í 12-14. Blikar sigu fram úr síðustu mínútur leikhlutans og voru yfir 16-27 að honum loknum. Gestirnir héldu uppteknum hætti í byrjun annars leikhluta og gerðu fyrstu sex stigin, 16-33, en þá náðu Stólastúlkur góðum kafla og náðu að minnka muninn í fimm stig, 37-42. Blikar náðu þó aftur undirtökunum og höfðu ellefu stiga forystu í leikhléi, 40-51.
Sjálfsagt hefur Antonio d'Alberto, þjálfari Blika, vandað kveðjurnar í hálfleik því lið Breiðabliks kom ákveðið til leiks í þriðja leikhluta sem þær unnu 31-9 og gerðu þar með út um leikinn. Lokatölur voru 64-107. Tess Williams var atkvæðamest í liði Tindastóls með 26 stig og 16 fráköst, Kristín Halla var með 11 stig, Eva Rún 10 og Marín Lind 8.
Geysisbikar karla: 16 liða úrslit
Tindastóll - Fjölnir 97-71
Að lokum var það viðureign toppliðs Tindastóls gegn liði Fjölnis úr Grafarvogi sem situr sem stendur í þriðja sæti 1. deildar. Báðum liðum gekk illa að finna körfuna á upphafsmínútum leiks og staðan 7-4 eftir fimm mínútur. Þristur frá Brynjari Þór og íleggja frá Danero komu Stólunum í 12-4 og heimamenn höfðu frumkvæðið til loka fyrsta leikhluta. Fjölnismenn voru hinsvegar að spila ágætlega og þeir komust yfir snemma í öðrum leikhluta í kjölfarið á hressandi dramakasti frá Danero sem fékk tvær villur á augnabliki og var skyndilega kominn með fjórar villur. Stólarnir náðu ekki almennilega takti í vörnina fram að hléi en voru þó yfir, 43-37, þegar flautað var til hálfleiks.
Stólarnir náðu fljótlega tíu stiga forskoti í síðari hálfleik en gestirnir voru sýnd veiði en ekki gefin og minnkuðu muninn í fimm stig, 56-51, en á lokamínútum þriðja leikhluta setti Brynjar tvo þrista og Alawoya var seigur undir körfunni. Þristur frá Pétri tryggði síðan tíu stiga mun fyrir lokaátökin, 68-58. Munurinn varð 15 stig snemma í fjórða leikhluta, gestirnir náðu einu stuttu áhlaupi en síðan var mesti móðurinn af þeim og Stólarnir sigldu heim góðum sigri, sem var þó ekki eins öruggur og tölurnar gefa til kynna. Lokatölur 97-71.
Alawoya átti toppleik fyrir Tindastóls, gerði 27 stig og tók 17 fráköst. Dino Butorac hitti vel í kvöld og var með 19 stig, Brynjar var með 17 og Pétur 14.
Lið Tindastóls er því komið áfram í Geysis-bikarnum og er því enn í möguleika með að verja bikarinn sem ekki er lengur Maltneskur. Liðið á eftir að spila einn leik fyrir jólafrí en sá leikur fer fram í Keflavík og er einmitt gegn liði Keflavíkur. Þá þarf liðið að spóla sig aðeins í gang því síðustu leikir hafa hálfpartinn var leiknir með annarri. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.