Skellur í Mosfellsbænum
Tindastóll lék annan leik sinn í 2. deildinni þetta sumarið sl. laugardag. Að þessu sinni var leikið við lið Aftureldingar í Mosfellsbænum og þurftu strákarnir að þola stóran skell, fengu á sig sjö mörk, en hafa nú leikið við tvö af sterkustu liðum deildarinnar í upphafi móts á útivelli.
Konráð Sigurðsson kom Stólunum yfir á 17. mínútu en heimamenn svöruðu með tveimur mörkum á næstu fimm mínútum, frá Elvari Vignissyni og Wentzel Kamban. Konni jafnaði leikinn á 26. mínútu en aðeins mínútu síðar gerði Andri Jónasson þriðja mark heimamanna, Elvar bætti við fjórða markinu á 31. mínútu og Andri gerði annað mark sitt á 42. mínútu. Staðan 5-2 í hálfleik.
Bæði Konni og Bjarki Árna voru komnir út af í hálfleik en Stólunum gekk engu að síður betur að verjast mótherjum sínum í síðari hálfleik. Afturelding gerði sjötta mark sitt á 68. mínútu og þar var Wentzel aftur á ferðinni og þremur mínútum síðar fullkomnaði Andri þrennu sína í leiknum, staðan 7–2 og þar við sat.
Tveir erlendir leikmenn léku með liði Tindastóls í leiknum. Í markinu stóð Santiago Fernandez frá Uruguay og þá var Stefan Antonio Lamanna frá Toronto í Kanada með Stólunum. Næsti leikur Stólanna er í Vogunum um næstu helgi þar sem þeir mæta Þrótturum með Ragnar Gunnarsson í broddi fylkingar og þann 26. maí er loks komið að heimaleik en þá mæta Víðismenn á Sauðárkróksvöll.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.