Skellur á snjóhvítu gervigrasinu
Tindastóll og Þróttur Vogum mættust í hríðinni á laugardag og var leikið á gervigrasinu á Króknum. Tindastólsmenn voru ansi fáliðaðir og varð þjálfari liðsins, James Alexander McDonough að reima á sig takkaskóna. Það dugði þó ekki til því piltarnir úr Vogunum unnu öruggan 1-5 sigur.
Ingvar Ásbjörn Ingvarsson gerði fyrsta markið úr víti á 12. mínútu og Guðmundur Már Jónasson bætti við marki eftir um hálftíma leik og staðan 0-2 í hálfleik. Tómas Hafberg bætti við þriðja marki Þróttara á 59. Mínútu en Eysteinn Bessi Sigmarsson minnkaði muninn fyrir Tindastól fimm mínútum síðar og gaf Stólunum von. Hún entist í þrjár mínútur því Andri Jónasson bætti við fjórða marki gestanna á 68. Mínútu. Það var síðan Jón Gestur Birgisson sem gerði síðasta mark leiksins þegar um fimm mínútur voru til leiksloka. Lokatölur því sem fyrr segir 1-5 og hafa Stólarnir spilað tvo leiki í Lengjubikarnum en þeir gerðu jafntefli við Sindra í fyrsta leiknum.
Kvennalið Tindastóls er einnig skráð til leiks í Lengjubikar kvenna og spilar þar í C-deild. Stelpurnar fara af stað í keppninni um miðjan mars en með þeim í riðli 3 eru lið Fjarðabyggðar/Leiknis/Hattar, Hamrarnir frá Akureyri, Sindri Höfn og Völsungur Húsavík.
Þá tekur lið Kormáks/Hvatar þátt í Lengjubikar karla og spilar þar í riðli 2 í C-deild. Andstæðingar þeirra eru lið Álafoss, KH, Samherja og Snæfells. Húnvetningar leika sinn fyrsta leik næstkomandi sunnudag í Boganum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.