Skagfirðingur sækir um Landsmót 2024
Hestamannafélagið Skagafirðingur hefur sótt um að halda Landsmót hestamanna árið 2024 en á heimasíðu Landssambands hestamannafélaga kemur fram að þrjú félög sóttu um halda mótið. Í frétt á mbl.is er haft eftir Lárus Ástmar Hannessyni, formanni LH, að hann reikni með að fundað verði með fulltrúum umsækjenda í þessum mánuði og í kjölfarið verði einn staður valinn og skrifað undir viljayfirlýsingu um að halda mótið þar.
Auk Skagfirðings, sem sótti um með Hóla í Hjaltadal sem mótssvæði, þá sóttu hestamannafélagið Fákur með Víðidal sem mótssvæði og hestamannafélögin á Suðurlandi í nafni Rangárbakka með Rangárbakka sem mótsstað. Af þessum staðsetningum er lengst síðan mótið fór fram í Skagafirði en Landsmót á Hólum fór fram 2016, mót var í Reykjavík (Víðidal) 2018 og verður á Kjóavöllum í Garðabæ 2022 en Landsmót 2020 fer fram á Hellu dagana 6.–12. júlí.
Lárus Ástmar segir að litið hafi verið til þess að skipta mótunum á milli landshluta.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.